Svarið kemur í kjölfar þess að Helgi svaraði í gær yfirlýsingu félagsins þar sem ummæli hans í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun voru sögð ósönn og til þess fallin að valda Samherja tjóni.
Í þættinum ræddi Helgi hin víðfrægu Samherjaskjöl og fullyrti að „yfir þúsund störf“ hafi glatast hjá heimamönnum í Namibíu vegna meintra brota Samherja í landinu.
Sjá einnig: Helgi svarar ásökunum Samherja um uppspuna
Í tilkynningu sem Samherji birti í dag talar fyrirtækið um „ítrekuð ósannindi fréttamanns“ og sakar Helga um að hafa í svari sínu í gær „endurtekið rangar fullyrðingar sínar um glötuð störf í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu.“
Í svari sínu vitnaði Helgi meðal annars til fréttar í namibíska miðlinum The Namibian Sun þar sem fullyrt er að meint ólöglegt samráð Samherja og þáverandi namibískra ráðherra hafi mögulega leitt til þess að þúsundir hafi misst störf sín í namibískum sjávarútvegi. Einkum hafi sjávarútvegsfyrirtækið Namsov þurft að segja upp fólki í kjölfar breytinga á reglum um úthlutun aflaheimilda.
Fullyrðir að engin störf hafi glatast
Samherji segir þetta af og frá.„Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa.“
Þá kemur fram í tilkynningunni að umrætt fyrirtæki hafi lengst af ekki verið í eigu Namibíumanna heldur í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group.
„Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.“
Segir uppsjávarveiðar hafa verið á höndum Suður-Afríkumanna
Þá fullyrðir Samherji jafnframt að fram til ársins 2012 hafi uppsjávarveiðar í landinu verið nær eingöngu í höndum umrædds Namsov og annars fyrirtækis sem hafi sömuleiðis verið lengst af undir suður-afrísku eignarhaldi.„Hlutur heimamanna í namibískum sjávarútvegi jókst fyrst eftir að breytingar urðu á reglum um úthlutun á árunum 2011-2012 þegar aflaheimildir voru teknar frá gömlu suður-afrísku fyrirtækjunum. Það var eftir að félög tengd Samherja og fleiri erlend útgerðarfyrirtæki hófu starfsemi í namibískum sjávarútvegi.“
Að lokum segir félagið að það sé „ekki boðlegur málflutningur hjá Helga Seljan að flytja ítrekað þau ósannindi að Namibíumenn hafi glatað störfum í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu.“