Líkamsræktarstöðin World Class ætlar að opna dyrnar að Laugum, stöð sinni í Laugardalnum, á miðnætti á sunnudaginn. Þetta kemur fram í færslu World Class á samfélagsmiðlum. Útibú World Class við Kringluna opnar sömuleiðis á miðnætti en sú stöð er almennt opin allan sólarhringinn.
Hafdís Jónsdóttir og Björn Leifsson, eigendur World Class, ætla því að feta í fótspor sundlauganna í Reykjavík og víðar á landinu sem fögnuðu opnun á ný með miðnæturopnunum. Langar raðir mynduðust við sundlaugarnar og þurftu margir frá að hverfa.
Björn hefur lýst yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun að leyfa opnun sundlauga en ekki líkamsræktarstöðva. Í framhaldinu var staðfest að líkamsræktarstöðvar mættu opna viku síðar.
Um fimmtíu þúsund manns eru með kort í World Class. Björn hefur fullyrt að World Class hafi tapað um 75 milljónum króna í hverri viku á meðan stöðvarnar voru lokaðar.