Rio Tinto hefur niðurfært eign sína vegna álversins í Straumsvík að fullu eða um 269 milljónir dollara, sem eru rúmlega 36 milljarðar króna. Álverið er því verðlaust að því er fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins.
Vænt tekjustreymi eignarinnar virðist ekki vera nægt og því hafi félagið metið eignina verðlausa. Ákvörðun hafi því verið tekin um að niðurfæra hana að fullu en það sama var gert við verksmiðjur félagsins í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Rio Tinto lagði á miðvikudag í síðustu viku fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins þar sem það mat það svo að Landsvirkjun misnotaði yfirburðarstöðu sina gagnvart ISAL.
Álframleiðsla félagsins hefur dregist saman um 2 prósent á heimsvísu á fyrri hluta ársins. Meðal skýringa sem gefnar eru er að ISAL verksmiðjan á Íslandi hafi aðeins verið rekin á 85 prósent getu. Um 500 manns vinna hjá álverinu.