Saksóknarar í Japan hafa gefið út handtökuskipun á hendur Carole Ghosn, eiginkonu fyrrverandi stjórnarformanns Nissan sem flúði land þegar hann gekk laus gegn tryggingu í síðustu viku. Hún er sökuð um að hafa framið meinsæri þegar hún bar vitni í máli eiginmanns hennar í fyrra.
Carlos Ghosn flúði til Líbanon í síðustu viku en hann hefur verið sakaður um fjármálamisferli í störfum sínum fyrir Nissan í Japan. Saksóknararnir segja að eiginkona hans hafi logið um millifærslur sem eru taldar hafa valdið Nissan fjárhagslegu tjóni, að sögn AP-fréttastofunnar. Þá á hún að hafa logið um að hún þekkti ekki ákveðið fólk og um að hún hefði ekki hitt það.
Eftir að Carlos Ghosn var látinn laus gegn tryggingu var eiginkonu hans bannað að hitta hans af ótta yfirvalda við að hún myndi hjálpa honum að eiga við sönnunargögn í málinu.
Carole Ghosn er ekki í Japan og hefur sést á myndum með eiginmanni sínum í Beirút í Líbanon. Engin framsalssamningur er á milli Japans og Líbanons og viðurkenna japönsk yfirvöld að óljóst sé hvort að hann fáist framseldur til að svara til saka fyrir ákærurnar þar.
