Áramótaskaupið var að sjálfsögðu á sínum stað á gamlárskvöld, enda fastur liður í áramótafögnuði flestra Íslendinga.
Handritshöfundar Skaupsins í ár voru þau Þorsteinn Guðmundsson, Dóra Jóhannsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Jakob Birgisson, Sævar Sigurgeirsson, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Hugleikur Dagsson og Reynir Lyngdal, sem jafnframt leikstýrði í ár. Reynir leikstýrði síðast Skaupinu árið 2006.
Eitt atriði vakti sérstaklega mikla athygli og var þá verið að gera sér mat úr fyrirlestraröð Öldu Karen Hjaltalín. Alda Karen hefur náð töluverðum árangri með sínum fyrirlestrum en þar reynir hún að aðstoða gesti í sal að ná sínum markmiðum. Það vakti sérstaka athygli þegar hún hvatti fólk til að kyssa peninga og í kjölfarið myndi það eignast peninga.
SNL á Íslandi
„Á gamlárskvöld lék unga leikkona mig í árlegum áramótagrínþætti á Íslandi og hef ég fengið fullt af skilaboðum og myndböndum frá vinum og vandamönnum í kjölfarið,“ segir Alda Karen í færslu á Instagram. Hún segist ekki hafa geta horft á Skaupið fyrr en á nýju ári og var nýbúin að sjá þáttinn þegar færslan fór inn.
„Þessi þáttur er rosalega vinsæll á Ísland, svona eins og Saturday Night Live nema bara einu sinni á ári. Það er svo skrýtið að sjá einhvern leika þig í sjónvarpi og ég er enn að ná utan um þetta. Ég var tekin illa fyrir og ég hló mjög mikið allan tímann. Elskaði þetta.“
Hún segir að leikkonan Dóra Jóhannsdóttir hafi litið alveg eins út og hún.
„Ég er svo þakklát og þetta er mikill heiður fyrir mig. Fólk sem þekkir mig vel veit að ég lifi fyrir góðan húmor og mikinn hlátur. Get ekki ímyndað mér betri byrjun á árinu.“
Hér að neðan má sjá atriðið í heild sinni.