Verðlag hér á landi var árið 2018 66 prósent hærra en að meðaltali í öðrum löndum Evrópu, samkvæmt endurskoðuðum tölum frá Hagstofu Evrópu, Eurostat. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Heilbrigðisþjónusta og menntun eru á meðal þess sem er dýrast hér á landi samkvæmt hinum endurskoðuðu tölum.
Löndin sem tekin eru með í samanburði Eurostat á neysluútgjöldum heimila eru 36 Evrópulönd, þar af ESB-löndin og EFTA-löndin Ísland, Noregur og Sviss. Þegar samanburðurinn var fyrst birtur í júní í fyrra var verðlag á Íslandi hæst, eða 56 prósent hærra en meðaltalið í löndum á evrópska efnahagssvæðinu.
Endurskoðaðar tölur, sem birtar voru á vef Norsku hagstofunnar í liðinni viku, sýna fram á töluverða hækkun. Verðlag á Íslandi er, samkvæmt þeim, nú 66 prósent hærra en umrætt meðaltal. Verðlag er næsthæst í Sviss, Noregi og Lúxemborg.
Þegar útgjaldaliðir eru bornir saman sést að matur og drykkur er dýrastur í Noregi, eða 63 prósent yfir meðaltali. Þar á eftir kemur Sviss og næst Ísland, sem er 48 prósentum yfir meðaltali. Áfengi er einnig dýrast í Noregi og næstdýrast á Íslandi.
Heilbrigðisþjónusta er hins vegar dýrust á Íslandi, eða 131 prósent yfir meðaltali, sem og menntun, eða 106 prósent yfir meðaltali. Þá eru veitingastaðir, hótel og fatnaður einnig dýrust á Íslandi.