Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna alla daga hálf sjö, þá segir Google Home mér hvað klukkan er, kveikir ljósin og segir mér hvað er framundan.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fyrsta sem ég geri er að staulast fram úr, og fá mér kaffi, hleypa hundinum út og svo hefst teygju æfing dagsins. Hana hef ég stundað frá sirka þriggja ára aldri en felst aðallega í því að teygja mig eftir fötunum og reyna að klæða mig skammlaust.
Þrátt fyrir gífurlega æfingu í þessum teygjum reynist það erfiðara með hverju árinu að fara í sokkana.“
Strengdir þú áramótaheit?
„Þau voru nokkur að venju, eitt af þeim er að hætta að ganga í sokkum, sbr. svarið hér áðan, vera duglegri í hestamennskunni og að gera sjálfan mig og það hús sem ég rek óþarft með því að útrýma Covid.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnið þessa dagana er að hýsa þá sem sýktir eru af Covid og geta ekki verið í einangrun heima hjá sér, eða eiga jafnvel hvergi heima. Hér hafa verið um 450 sýktir einstaklingar sem hefðu af öðrum kosti lamað Landspítalann, verkefnið er jafn fjölbreytt og gestirnir eru margir.
Sumir þurfa litla sem enga umönnun á meðan aðrir þurfa mikla. Þrátt fyrir mikla vinnu sem er allan sólarhringinn, er þetta ein skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í. Starfsfólkið allt sem verið hefur með mér yndislegt og hér er mikið hlegið, þótt erfiðar stundir séu óneitanlega inn á milli líka.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Þessa vinnu er lítið hægt að skipuleggja, ég veit aldrei hvað bíður mín, ég hef þurft að sitja yfir mjög veiku og hræddu fólki, ég hef þurft að leika við börn á meðan móðir þeirra fær að hvílast, ég hef fylgt syrgjandi ekkju til að kveðja unnustan sinn í hinsta sinn eða ég hef verið við það að slá persónulegt met mitt í Angry Birds leiknum í símanum mínum.
Dagarnir eru aldrei eins, en ferlarnir eru skýrir svo ég veit alltaf hvað ég þarf að gera þegar ný verkefni eða ævintýri koma á mitt borð.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég vandist á það þegar ég var með morgunútvarpið á árum áður að fara að sofa kl. 23, það virðist virka því ég sofna alltaf og hef hingað til náð að vakna aftur. Legg því ekkert í að breyta því, nema í undantekningar tilfellum.“