Meðal notenda að lausn Videntifier eru aðilar eins og Interpol, Europol og alríkislögreglan FBI.
Í framhaldi af samningnum við Interpol tók Videntifier við þróun á hugbúnaði Interpol sem er notaður til að bera kennsl á börn sem hafa verið misnotuð og hefur með hjálp þessa hugbúnaðar tekist að bera kennsl á meira en 23.500 fórnarlömb,“
segir Sigurður.
Þá vakti það athygli árið 2018, þegar Facebook hóf samstarf við Videntifier til að skoða allar myndir og tryggja þannig höfundarréttarvarið efni.
„Varðandi Facebook þá höfum við átt í samskiptum við þá en ekkert sem hægt er að greina frá að svo komnu máli,“ segir Sigurður um stöðu samstarfsins við Facebook í dag.
Þegar hugmyndin fæðist
Hugmyndin að Videntifier fæddist upphaflega árið 2007 hjá tveimur tölvunarfræðinemum við Háskólann í Reykjavík, þeim Herwig Leisjek og Friðriki Ásmundssyni.
„Þeir voru að vinna að meistaraverkefni sem tengdist tölvusjón og gagnagrunnum þegar þeir uppgötvuðu aðferð við að leita hratt og af mikilli nákvæmni í stórum gagnasöfnum með myndefni. Með þessari aðferð var hægt að finna efni í gagnagrunnum sem innihéldu þúsundir klukkutíma af myndefni á sekúndubroti og þurfi oft einungis einn myndramma til að finna efnið,“ segir Sigurður
Sigurður segir notagildi þessarar nýju tækni hafa verið ótvíræðar enda hefðu fyrri aðferðir reynst of ónákvæmar og of hægvirkar.
Einkaleyfi fékkst á aðferðina og árið 2008 stofnuðu Herwig og Friðrik Videntifier, í samstarfi við Björn Þór Jónsson, dósent við Háskólann í Reykjavík. Þá má geta þess að stjórnarformaður Videntifier er Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Lausnin og löggæslan
Fljótlega fór Videntifier að vinna að þróun lausna sem gæti nýst löggæslunni sérstaklega, til dæmis við að finna ólöglegt myndefni eins og hryðjuverkaefni eða misnotkunarefni.
„Farið var í töluverða þróun á hugbúnaði til að greina ólöglegt efni og vinna fór í gang við þróun á miðlægum gagnagrunni með upplýsingum um ólöglegt myndefni sem nýst gæti löggæsluaðilum og netþjónustuaðilum,“ segir Sigurður og bætir við: „Hins vegar kom í ljós að á þessum tíma var markaðurinn ekki tilbúinn fyrir slíka lausn. Löggæslugeirinn er skiljanlega tortrygginn gagnvart nýrri tækni og innan geirans voru áhyggjur af því að viðkvæm gögn gætu komist í almenna umferð.“
Þá segir hann að netþjónustuaðilar hafi ekki haft mikinn áhuga í upphafi því lausnin fól í sér að meiri ábyrgð var sett á þeirra herðar, án þess að skapa þeim tekjur.
Loks fóru þó hjólin að snúast og þótt íslenskir fjölmiðlar hafi sagt frá samstarfinu við Interpol strax árið 2013, hafa fleiri stórir aðilar nýtt sér tækni Videntifier um árabil.
Þar má nefna National Center of Missing and Exploited Children (NCMEC) í Bandaríkjunum, sem hefur verið notandi frá árinu 2014.
Í gegnum samstarfsaðila hefur lausnin okkar einnig verið tekin í notkun hjá aðilum eins of FBI, DHS (Department of Homeland Security í Bandaríkjunum), Europol og UK Home Office en þar hafa menn verið að skoða möguleika á að nota lausnina við leit á hryðjuverkaáróðri,“
segir Sigurður.

Gríðarleg aukning á ólöglegu efni 2020
Að sögn Sigurðar, varð gríðarleg aukning á dreifingu ólöglegs efnis í fyrra. Í framhaldinu hóf fyrirtækið samstarf við NCMEC um frekari þróun.
„NCMEC er stofnun í Bandaríkjunum sem tekur við öllum tilkynningum sem berast um barnamisnotkunarefni á netinu innan Bandaríkjanna og er stærsta stofnun sinnar tegundar í heiminum. Um er að ræða gríðarlegt magn af efni og gefur augaleið að handvirk greining á þessu efni er tímafrek auk þess að valda miklu álagi á starfsmenn,“ segir Sigurður.
Aukið samstarf við NCMEC felst í því að nýta tækni Videntifier til að greina sjálfkrafa efni sem inniheldur sömu myndskeið og efni sem þegar hefur verið tilkynnt.
„Þetta verkefni gekk gríðarlega vel og með þessari viðbót tókst að minnka það efni sem þurfti að greina handvirkt um allt að 90%.“
Að halda úti starfsemi nýsköpunarfyrirtækis er þó oftar en ekki hægara sagt en gert. Við spyrjum Sigurð að lokum, hvað sé honum efst í huga þegar hann lítur til baka.
Þó stundum hafi verið hart í ári þá höfðum við alltaf fulla trú á verkefninu og tækninni og með aðhaldi í rekstri og fjármögnun frá aðilum sem trúðu á okkur tókst okkur að halda fyrirtækinu gangandi gegnum erfiða tíma,“
segir Sigurður.