
Tindastólskonur sögðu frá nýja liðstyrknum á Instagram síðu sinni. Tindastóll vann Lengjudeildina síðasta sumar og vann sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn.
Dominique Bond-Flasza er 24 ára hægri bakvörður sem spilaði síðast í Póllandi.
Dominique Bond-Flasza á pólskan föður og móðir hennar er frá Jamaíku. Hún fæddist í New York í Bandaríkjunum en eyddi fyrstu fjórtán árum sínum í Kanada.
Bond-Flasza spilaði með PSV Eindhoven frá 2018 til 2020 og var þá liðsfélagi þeirra Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur og Berglindar Björgu Þorvaldsdóttur.
Bond-Flasza á að baki sautján landsleiki fyrir Jamaíka en hún skoraði úr vítaspyrnunni sem tryggði landsliðinu sæti á HM 2019. Hún spilaði síðan einn af þremur leikjum liðsins á HM í Frakklandi.
Tindastóll hélt öllum þremur erlendu leikmönnum sínum frá því í fyrra. Hin bandaríska Amber Kristin Michel verður áfram í markinu sem og miðjumaðurinn Jacqueline Altschuld. Þá verður markadrottningin Murielle Tiernan áfram í fremstu víglínu eins og hún hefur verið undanfarin þrjú sumur.
Á þeim tíma hefur Murielle Tiernan skorað 73 mörk í 48 deildarleikjum og hjálpað Stólunum upp um tvær deildir.