Rakel er alls ekki ókunn verslunarrekstri en hún rak áður útvistarverslun undir nafninu Mt. Hekla við Skólavörðustíg 12 sem vék síðar fyrir Geysir Heima.
Þá var Rakel gjarnan nefnd í sömu andrá og eiginmaður hennar Jóhann Guðlaugsson, eigandi Geysis verslananna, en Jóhann var þó einn skráður eigandi eignarhaldsfélaganna Geysir Shops ehf. og Arctic Shopping ehf.
Bæði félög voru tekin til gjaldþrotaskipta í byrjun mars eftir að öllum verslunum þeirra var lokað í febrúar og starfsfólki sagt upp.
Hlutverkin snúist við
Aðspurð um tengslin við Geysi segist Rakel fyrst og fremst hafa séð um rekstur veitingastaðarins Rabbabara í Haukadal á sínum tíma.
„Ég var ekki mikið í verslunarrekstrinum svo það er frekar nýtt fyrir mér. Þó maður hafi auðvitað verið viðriðinn þetta öll þessi ár þá er ég ekki með beina aðkomu fyrr en núna,“ segir hún í samtali við Vísi.
Nú sé um að ræða nýtt upphaf en í þetta sinn hafi hlutverkin snúist við og Jóhann komi ekki að rekstri Mt. Heklu með beinum hætti.
„Hann er auðvitað við hliðina á mér og hjálpar mér að sjálfsögðu en ég er með þetta.“

Engar ísaxir
Auk Geysis rak Jóhann meðal annars Fjällräven verslun á Laugavegi og hefur Rakel nú tekið við umboðinu á Íslandi. Hún segir að í Mt. Heklu verði lögð áhersla á „mjúka útivist“ og léttan útivistarfatnað.
„Þetta er ekki Fjallakofinn og við verðum ekki með ísaxir,“ segir Rakel.
„Þetta verður aðallega Fjällräven í upphafi en síðan eitthvað meira, maðurinn minn var áður með Fjällräven verslunina og ég svona er að taka við en þetta er upphafið að nýrri verslun.“
Mun taka við gömlum inneignarnótum
Hótel Geysir hefur fest kaup á öllum vörulagernum úr þrotabúi Geysis verslananna og hyggst taka við rekstri verslunarinnar í Haukadal. Þá hafa eigendur hótelsins ákveðið að selja hluta vörubirgðanna, þá einkum útivistarvörur, áfram til Rakelar.
Að sögn hennar mun Mt. Hekla taka við inneignarnótum úr Fjällräven versluninni við Laugaveg en ekki úr verslunum Geysis.
Verslanir Geysis voru ekki síður þekktar fyrir íburðarmiklar og sérhannaðar viðarinnréttingar sem skáru sig úr fjöldanum. Rakel segir að byggt verði á þeim góða grunni og ekki hróflað við því sem virkar.
„Þetta er allt til staðar núna, við munum ekkert rífa allt út og setja nýtt inn. Við erum bara að fara að opna þetta eins og þetta er.“