Ársverðbólga mælist því 4,4% í maí og hjaðnar um 0,2 prósentustig frá apríl 2021 þegar hún var 4,6%. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í maí 2021, hækkar um 0,42% í maí frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,23% frá apríl 2021.
Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,5% milli mánaða og hafði 0,25% áhrif á vísitöluna. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur fyrir rúmri viku og vísaði meðal annars til þess að verðbólga hafi reynst þrálátari en áður var spáð.
Í samræmi við spá
Breytingin á vísitölu neysluverðs er í samræmi við spá Greiningar Íslandsbanka sem spáði því að 12 mánaða verðbólga myndi hjaðna í maí og mælast 4,4%. Hagfræðideild Landsbankans spáði 4,3% verðbólgu í maí og 0,33% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða. Í verðbólguspá Landsbankans segir að einna áhugaverðast verði að sjá hvernig reiknuð húsaleiga þróist á næstunni.
Verð á fasteignamarkaði hafi hækkað mjög mikið í mars og apríl samkvæmt mælingu Hagstofunnar og endurspegli mikla eftirspurn á fasteignamarkaði. Eftirspurnina megi meðal annars rekja til mjög hagstæðra vaxta á húsnæðislánamarkaði sem hafi ekki verið lægri.
„Við gerum einnig ráð fyrir að áhrif þeirra vaxtalækkana sem gripið var til á síðasta ári fari minnkandi. Þau áhrif hafa dregið úr áhrifum hækkandi fasteignaverðs á reiknaða húsaleigu,“ segir í spá Hagfræðideildar Landsbankans.
Fréttin hefur verið uppfærð.