Meðlimir hópsins eru tveir, hvorugur lærður listamaður og hér í nokkuð óhefðbundnu hlutverki; Guðrún Dröfn Whitehead, lektor í safnafræði við Háskóla Íslands, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Stöð 2 leit við á opnun sýningarinnar Light Your Fires síðasta föstudag en hún er haldin í Skúmaskoti, sal á Skólavörðustíg 21a, og stendur fram yfir næstu helgi.
Konur eiga að vera háværar
„Þetta er í rauninni sýning sem að gengur út á það að ögra viðteknum normum í samfélaginu eins og svo mikið af list gerir. Við erum með femínískar rætur á bak við þetta og erum í raun ekki að prómótera ákveðin skilaboð heldur að reyna að búa til upplifun fyrir áhorfandann sem hann getur tekið úr sín hughrif,“ sagði Jóhannes Þór.
Guðrún Dröfn segir nafn hópsins tekið af veggjakroti sem hún sá inni á þýsku kvennaklósetti. Sýningin á að tala inn í #MeToo-byltinguna. „Konur eiga að vera háværar. Konur eiga að vera nákvæmlega eins og þær vilja vera; þær eiga að vera grófar og reiðar og háværar og að krefjast meira,“ segir Guðrún Dröfn.
Og Jóhannes Þór tekur undir þetta: „Eitt af vandamálunum við þá umræðu sem hefur verið í gangi undanfarin ár er að karlmenn eru ekki að taka þátt í femínískri umræðu. Við þurfum öll að taka þátt í svona réttindabaráttu. Það er ekki nóg að sitja bara og bíða eftir að allt gerist.“
Femínískt raf-pönk
Á sýningunni er gestum boðið að setjast að borði og „upplifa hið fallega, rotna, frábrugðna, örmagna og óskipulagða.“ Hópurinn Vagínuvald skilgreinir sig sem íslenskan raf-pönk gjörningahóp sem framleiðir vídeóverk, hljóðverk, örljóð og ljósmyndir.
Verkin eru meðal annars byggð á kenningum femínísma og nota óþægilegt myndefni tekið á hversdagslegum stöðum, einhæfa raftónlist, umhverfishljóð og gróft málfar.