Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um verðlaunin Samfélagsskýrsla ársins 2021.
Ólík nálgun segir dómnefnd
Verðlaun fyrir Samfélagsskýrslu ársins voru fyrst veitt árið 2018 en þau fyrirtæki sem áður hafa hlotið verðlaunin eru Krónan árið 2020, Isavia árið 2019 og Landsbankinn árið 2018.
Alls bárust 28 tilnefningar í ár og þar af hlutu 24 skýrslur tilnefningu, í samanburði við 19 skýrslur árið á undan.
Í dómnefnd sátu Tómas N. Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landspítala og Kjartan Sigurðsson lektor við Háskólann í Twente í Hollandi.
Tómas var formaður dómnefndar en hann er jafnframt formaður FESTU.
Í umsögn dómnefndar fyrir val á verðlaunahöfum árið 2021 segir meðal annars:
„Að þessu sinni hljóta tvö fyrirtæki viðurkenningu fyrir gerð samfélagsskýrslu. Dómnefnd velur fyrirtæki sem eru ólík í eðli sínu og nálgast upplýsingagjöf um sjálfbærni í rekstri með nokkuð ólíkum hætti.
Með þessu telur dómnefnd að gefist tækifæri til að varpa breiðara ljósi á það mikilvæga verkefni sem gerð samfélags- og sjálfbærniskýrslna er orðin.“

Atvinnulífið bað verðlaunahafa um að svara spurningum um helstu áherslur og áskoranir fyrirtækjanna í samfélagslegri ábyrgð í fyrra.
Heimsmarkmiðin og innleiðing kjarnamarkmiða
Hvaða áherslur voru sérstaklega til grundvallar í upplýsingagjöf um samfélagslega ábyrgð BYKO árið 2020?

Berglind Ósk Ólafsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni, BYKO:
„Sjálfbærniskýrsla BYKO er unnin samkvæmt viðmiðum Global Reporting Inititative, eða sem kallast GRI, sem eru alþjóðlegir skýrslustaðlar. Áhersla er lögð á þrjá meginþætti, efnahag, samfélag og umhverfi.
Upplýsingar um fyrirtækið, stjórnskipulagið, umfang rekstursins, aðfangakeðjan og hagsmunaaðilar eru hluti af upplýsingagjöfinni og farið er einnig yfir framtíðarsýn BYKO og innleiðingu á sjálfbærnistefnu, umhverfisstefnu og mannauðsstefnu fyrirtækisins.
Í skýrslu fyrir rekstrarárið 2019 var gerð ítarleg greining á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem BYKO lagði áherslu á fimm kjarnamarkmið til að vinna að.
Í núverandi skýrslu er farið svo yfir hvernig innleiðing á þessum kjarnamarkmiðum hefur gengið og áhersla á næstu skref í þeirri innleiðingu.
Skilgreindir eru mælikvarðar fyrir alla meginþætti. Efnahagslegar upplýsingar eru dregnar fram úr rekstrarreikningi og mannauðsupplýsingar, til dæmis fjöldi starfsmanna eftir aldri og kyni.
Upplýsingar um umhverfisþætti eins og efnisnotkun í daglegri starfsemi eru skilgreindar niður á prentefni, pokanotkun og ræstingar og greining vegna orkunotkunar á borð við eldsneyti, rafmagn og upphitun eru tilgreind. Einnig eru vöruflutningar sem og meðhöndlun úrgangs hluti af upplýsingagjöf. Önnur starfsmannamál eru tilgreind eins og fræðsla, öryggi og vinnuvernd og greint áhættumat eru tekin fyrir.
Síðast en ekki síst eru mælikvarðar um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda reiknuð út þar sem tilgreint er uppruni losunar í tonnum CO2 og því kominn mælikvarði til að bregðast við og draga úr eigin losun.“
Að fá starfsfólkið með í lið
Að þínu mati, hverjar voru stærstu áskoranir fyrirtækisins í þessum efnum í fyrra?
Stærstu áskoranir BYKO voru að fá starfsfólk í lið með sér í sjálfbærnivegferðina. Að ná fram breyttri hugsun, breyttu viðhorfi og gefa starfsfólki tilgang til að taka þátt, máta sig við Heimsmarkmiðin og með því að skoða eigin vinnuaðferðir, verkferla og finna ný tækifæri.
Þetta er rökrétt framhald af skýrri stefnu BYKO, að birta með skýrum og gagnsæjum hætti vegferð okkar að sjálfbærni og upplýsa bæði starfsfólk, stjórnendur og hagaðila.“

Opin og góð samskipti við hagaðila
Hvaða áherslur voru sérstaklega til grundvallar í upplýsingagjöf um samfélagslega ábyrgð Landsvirkjunar árið 2020?

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Sem stærsti vinnsluaðili raforku á Íslandi berum við ábyrgð. Ábyrgð fyrirtækisins hvað varðar sjálfbærni snýr meðal annars að því að fara vel með auðlindir og umhverfi, stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins og skapa arð.
Sjálfbærni hefur allt frá upphafi verið kjarnaþáttur í starfsemi fyrirtækisins.
Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 og þá var strax horft til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi, auk þess að skapa efnahagsleg verðmæti. Til dæmis með því að skapa störf, gera atvinnulífið fjölbreyttara, stuðla að aukinni tækniþekkingu í samfélaginu og ganga af virðingu um náttúruna með góðum frágangi, fallegum mannvirkjum, skógrækt og landgræðslu.
Við erum sífellt að leita nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi Landsvirkjunar. Við viljum að fyrirtækið láti gott af sér leiða og starfi í jafnvægi við efnahag, umhverfi og samfélag og eigum í opnum samskiptum við hagaðila okkar.
Með sjálfbærniskýrslunni gáfum við upplýsingar um þessar áherslur okkar og frammistöðu í málefnaflokkum sem snúa að sjálfbærni og samfélagsábyrgð fyrirtækisins.
Eftir viðamikið samráð við hagaðila fyrirtækisins á tímabilinu 2019-2020 er nú sérstaklega horft á forgangsröðun þeirra á málefnum við miðlun upplýsinga, stefnumótun og markmiðasetningu.
Á meðal þeirra málefna eru loftslagsbreytingar, orkuvinnsla í sátt við náttúru landsins, bætt nýting auðlinda og minni sóun, öryggi og vellíðan starfsfólk, jafnréttismál, samvinna með nærsamfélögum, ábyrgir starfshættir og siðferðisviðmið, sköpun efnahagslegra verðmæta og orkutengd nýsköpun.“
Héldu sínu striki þrátt fyrir Covid
Að þínu mati, hverjar voru stærstu áskoranir fyrirtækisins í þessum efnum í fyrra?
Veirufaraldurinn hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á starfsemi okkar eins og annarra fyrirtækja í landinu á árinu 2020.
Þó má segja að við höfum haldið okkar striki í sjálfbærniverkefnum og upplýsingagjöf um þau, þökk sé eljusemi og ákveðni starfsfólks.
Sem dæmi má nefna að aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum gekk vonum framar, en losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar dróst saman um 8% á árinu og við erum á áætlun með að ná markmiði okkar um að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2025.
Annað dæmi sem má rekja er að mikill kraftur var í starfi við orkutengda nýsköpun á árinu, en hún er sívaxandi hluti af starfsemi okkar. Má þar nefna samstarfsverkefnin Orkídeu á Suðurlandi, EIM á Norðurlandi og Bláma á Vestfjörðum.
Við vinnum einnig með sprotafyrirtækjum, en þar má nefna MýSilica og MýSköpun í Mývatnssveit, auk þess sem við eigum í margvíslegu samstarfi við ýmsa aðila, svo sem frumkvöðla, háskóla, fyrirtæki og vísindamenn.
Þá stöndum við fjölbreyttar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum og jarðfræði.“
