Refugio Manuel Jimenez yngri og Angela Renee Jimenez hafa verið ákærð fyrir fjölda brota, þar af manndráp af gáleysi, vegna El Dorado eldanna sem brunnu í Kaliforníu síðasta haust. Þá hafa þau verið ákærð fyrir að hafa valdið eldinum. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Rannsakendur segja að flugeldar, sem voru sprengdir í kynjaveislunni, hafi verið kveikjan að eldunum þar sem minnst einn slökkviliðsmaður fórst og fjöldi annarra særðust.
Kynjaveislur, eða Gender reveal eins og þær kallast á ensku, eru veislur sem haldnar eru til að upplýsa um kyn barns sem fólk á von á. Veislurnar hafa notið gríðarlegra vinsælda vestanhafs undanfarin ár. Þar má jafnan sjá fólk skera í köku, sprengja blöðrur eða annað slíkt þar sem annað hvort liturinn bleikur eða blár brýst út og á að gefa í skyn hvort barnið sé stúlka, bleikt, eða strákur, blár.
Parið hefur lýst yfir sakleysi í málinu.
Meira en 89 ferkílómetrar urðu El Dorado eldunum að bráð í San Bernardino sýslu í suðurhluta Kaliforníu. Heimili og fyrirtæki brunnu til kaldra kola og fjöldi fólks þurfti að flýja eldana.
Eldarnir brunnu í um tvo mánuði en loks náðist að ráða niðurlögum þeirra þann 16. nóvember í fyrra. Slökkviliðsmaðurinn Charles Morton fórst í aðgerðunum gegn eldunum og fjöldi annarra slökkviliðsmanna slasaðist alvarlega.
Parið mun mæta fyrir dóm þann 15. september næskomandi.