Við skulum rýna í nokkrar vísbendingar um starfstilboð sem þú ættir að íhuga vel áður en þú þiggur þau og jafnvel afþakka.
1. Ákvarðanatakan tók mjög langan tíma
Ef þú færð svar frá vinnuveitandanum löngu eftir að þú sóttir um, skiptir miklu máli hvort þú fáir haldgóðar skýringar á því hvers vegna svo er.
Því ef þú færð engar skýringar en það tók samt 30 daga eða meira að láta þig vita að þú fékkst tiltekið starf, gæti það verið vísbending um ákveðinn stjórnunarvandi innanhús.
2. Hröð starfsmannavelta
Ef þú færð upplýsingar um hraða starfsmannaveltu er ástæða til að staldra aðeins við. Hvers vegna eru svona margir að byrja og hætta? Hvers vegna staldra flestir svona stutt við? Var manneskjan sem var í starfinu á undan lengi í þessu starfi eða einungis í mjög stuttan tíma? Hvað með manneskjuna þá á undan henni?
Best er að reyna að heyra frá einhverjum sem þú þekkir (eða þekkir einhvern sem þú þekkir), hver skýringin er sögð vera á starfsmannaveltunni.
3. Sameiginleg sýn
Þú þarft að vera viss um að sá sem er að ráða þig og þú sjálf/ur séuð örugglega á sömu blaðsíðunni hvað varðar það hvað ætlast er til af þér í nýja starfinu.
Ágætis ráð er að nýta atvinnuviðtalið vel því þar er umsækjendum oftast boðið að spyrja spurninga. Þá er ágætt að meta það í atvinnuviðtalinu hvort stjórnandinn talar ekki í samræmi við það sem fram kom í atvinnuauglýsingunni.
4. Sveigjanleikinn
Starfsfólk og vinnuveitendur eru sífellt að horfa meira til sveigjanleikans. Sem á sér alls kyns birtingarmyndir. Allt frá því að vera um fjarvinnu, eða hvernig horft er til viðveru, verkefnaskila, veikinda barna og svo framvegis.
Þótt sveigjanleiki geti verið mismunandi eftir því hvert eðli starfsins er, skiptir máli hvort þú upplifir að sveigjanleiki sé til staðar eða hvort þú upplifir fastheldni, stífni eða að sjálfsagt sé að allir vinni hvenær sem er og svo framvegis. Hvernig rímar þessi upplifun við þína sýn, þínar áherslur, fjölskylduhagi eða lífstíl?
5. Áhugi í atvinnuviðtalinu
Það segir mikið til um vinnustaðinn, hvernig stjórnandinn sem þú hittir í atvinnuviðtalinu, beitir sér í viðtalinu.
Er áhuginn á þér til staðar? Er hann einlægur?
Áhugalaus stjórnandi í atvinnuviðtali er í fæstum tilvikum stjórnandi sem þér á eftir að finnast frábært að vinna með. Því eitt af því sem rannsóknir hafa margsýnt er að góður stjórnandi er stjórnandi sem kann að hlusta og sýnir starfsfólki sínu áhuga.
6. Einsleitni
Fjölbreytileiki á vinnustað skiptir líka máli. Ekki aðeins með tilliti til kyns eða aldurs. Ef starfshópurinn hjá viðkomandi vinnustað virðist nokkuð einsleitur, skiptir miklu máli að þú mátir þig við þann hóp fyrirfram.
Því ef þú munt upplifa að þú passir ekki inn í hópinn, eru minni líkur á að þér muni líða vel í starfinu.
Ef vinnustaðurinn virðist nokkuð fjölbreyttur hvað starfsfólk varðar, skaltu líta á það sem jákvætt atriði.
7. Vöxtur og velgengni
Hvernig virðist vinnustaðnum annars vera að ganga? Er honum að ganga vel og að vaxa? Er hann í fjárhagskröggum?
Hvernig lýsir stjórnandinn þessum málum í atvinnuviðtalinu?
Ef staðan er til dæmis mjög slæm, viltu ekki komast að því daginn sem þú átt að fá útborgað.
8. Pressan um svar
Í einstaka tilvikum gæti fólk fengið starfstilboð þar sem það þó á að svara af eða á bara 1,2 og 3.
Hefur til dæmis bara daginn eða sólahring til að svara.
Að öllum líkindum þýðir þetta að allar bjöllur eru að hringja. Því almennt felst ráðningarferlið í því að vinnuveitandinn hefur svigrúm til að meta þig sem umsækjanda og þú hefur svigrúm til að meta vinnustaðinn og starfið.