Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir ekki hægt að draga aðra ályktun af afskiptaleysi stjórnvalda en að netsalan sé lögleg. Þrátt fyrir það hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kært starfsemina til lögreglu og skattayfirvalda, að því er kemur fram í Fréttablaðinu.
„Þarna er skrítin staða uppi. Ráðamenn segjast ekki sjá annað en að starfsemin sé lögleg en opinber stofnun stendur í því að kæra menn. ÁTVR virðist þannig vísvitandi vinna gegn fyrirsjáanleika og öryggi í viðskiptum með þessa löglegu vöru,“ segir Ólafur.
Félag atvinnurekenda sendi erindi á fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem áframsendi það á dómsmálaráðuneytið eftir að hafa borist ítrekun. Síðan eru liðnar tvær vikur en ekkert svar hefur borist frá dómsmálráðuneytinu.
Þess ber að geta að bæði ráðuneytin eru á forræði Sjálfstæðisflokksins, sem hefur barist fyrir því að liðka fyrir sölu á áfengi, til dæmis með því að heimila sölu þess í matvöruverslunum.