Fjölmiðlar hafa greint frá tveimur málum undanfarna daga; gegn Þórgný Thoroddsen, sem á og rekur Bjórland.is, og Arnari Sigurðssyni, eiganda Santewines og Sante ehf.
„ÁTVR veit að niðurtalningin er hafin og þess vegna reyna stjórnendur á handahófskenndan hátt að leggja stein í götu okkar. Ekkert af þessu hefur borið árangur,“ sagði Arnar í samtali við fréttastofu en hann og Þórgnýr segja báðir þá sögu að ÁTVR hafi höfðað mál gegn þeim eftir árángurslausar umleitanir til lögreglu og annarra yfirvalda.
Málið gegn Þórgný verður þingfest á morgun.
„Ég hef alltaf gengið útfrá því að maður væri þyrnir í augum Vínbúðarinnar,“ sagði Þórgnýr í samtali við Vísi. „Þetta var viðbúið og við svona gerðum alltaf ráð fyrir að einhver afskipti myndu eiga sér stað,“ svarar hann spurður að því hvort málshöfðunin hafi komið honum á óvart.
Að sögn Þórgnýs virðist ÁTVR hafa tvisvar reynt að tilkynna hann til lögreglu og einu sinni til sýslumanns, en án árangurs. „Þeir hafa greinilega ekki séð ástæðu til að aðhafast.
Þórgnýr er gert að sök að hafa brotið gegn einkarétti ÁTVR á áfengissölu hérlendis.
„Það er ekkert annað að gera en að færa einn fót framfyrir annan,“ segir hann um næstu skref.
Kemur til greina að gefast upp og loka starfseminni?
„Nei, alla vega ekki strax,“ svarar hann og hlær. „Nei, nei. Við ætlum að grípa til varna og sjá hvert það leiðir okkur. Ég opnaði ekki þessa búllu til þess eins að gefast upp við minnsta mótlæti.“