Samkomulagið náðist eftir viðræður milli Chuck Schumer, leiðtoga Demókrata, og Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana, sem stóðu yfir fram á nótt í gær. Viðræðurnar hófust eftir að McConnell lagði fram tillögu að samkomulagi.
Sjá einnig: Eygja samkomulag til að forðast efnahagslegar hörmungar
Gjaldþrot ríkissjóðs hefði haft gífurlegar efnahagslegar afleiðingar í Bandaríkjunum og víðar en þingið var undir miklum þrýstingi frá Hvíta húsinu og forsvarsmönnum bandarískra fyrirtækja um að koma í veg fyrir gjaldþrot.
Í eins stuttu máli sagt og hægt er, þá hafa deilurnar um skuldaþakið snúist um það að Demókratar eru bara með eins manns meirihluta í öldungadeildinni og þá með úrslitaatkvæði Kamöllu Harris, varaforseta, 51 atkvæði á móti 50. Til að samþykkja flest frumvörp í öldungadeildinni þarf hins vegar sextíu atkvæði vegna reglunnar um aukinn meirihluta.
Reglan um aukinn meirihluta
Reglan segir til um að þörf sé á 60 atkvæðum af hundrað fyrir flest frumvörp en á ensku kallast þessi regla „filibuster“. Hún felur í raun í sér að hvaða þingmaður sem er getur tafið störf þingsins með málþófi, nema minnst 60 þingmenn greiði atkvæði gegn því.
Á árum áður þurftu þingmenn að standa í pontu og halda ræður til að stöðva störf þingsins með málþófi en því var breytt á þá leið að þingmenn þyrftu bara að lýsa því yfir að þeir ætluðu að tefja störf þingsins og ekki standa í pontu.
Það þarf þó einungis 51 atkvæði til að fella regluna niður. Demókratar felldu regluna niður tímabundið þegar Repúblikanar stóðu í vegi margra sem Barack Obama hafði tilnefnt til fjölmargra opinberra embætta og Repúblikanar felldu niður regluna varðandi tilnefningu hæstaréttardómara í forsetatíð Trumps.
Repúblikanar hafa ekki viljað veita hækkun skuldaþaksins eitt atkvæði á þeim grundvelli að Demókratar ætli sér í mjög óábyrga eyðslu úr ríkissjóði. Þess í stað vilja Repúblikanar að Demókratar hækki skuldaþakið með sérstakri og tímafrekri leið til að komast hjá málþófi.
Það vilja Repúblikanar svo þeir geti gagnrýnt Demókrata fyrir óábyrgan ríkisrekstur og fjárútlát í næstu þingkosningum.
Demókratar segja á móti að hækkun skuldaþaksins sé á ábyrgð beggja flokka, þar sem það snúi að skuldum sem búið er að stofna til. Það komi frumvörpum sem Demókratar vilji koma í gegnum þingið ekkert við.
Þá benda Demókratar á að þeir hafi hjálpað Repúblikönum við skuldaþakið í forsetatíð Donalds Trump.
Mitch McConnell hefur gert það ljóst að þrátt fyrir samkomulagið vill hann enn að Demókratar hækki skuldaþakið einir til lengri tíma.