Vestfirðir hafa í gegnum tíðina verið tilnefndir inn á alls konar lista yfir rómaða ferðamannastaði og vakti til að mynda Vestfjarðarleiðin, sem opnaði í fyrra, mikla athygli. Díana Jóhannsdóttir hjá áfangastofu Vestfjarða segir þó að viðurkenning Lonely Planet sé sú stærsta sem þau hafa fengið.
„Það er auðvitað ótrúlega gaman að fá svona mikla viðurkenningu og þetta mun sennilega nýtast okkur næstu árin fyrir Vestfirði, þannig það er mikil gleði hérna hjá okkur fyrir vestan,“ segir Díana.
Samkvæmt upplýsingum frá Mælaborði ferðaþjónustunnar voru 28 gististaðir með 673 gistirúmum á Vestfjörðum á síðasta tímabili, færri en í öllum öðrum landshlutum. Vestfirðir eru nú á leið inn á stærri markað en áður eftir að hafa legið að mestu undir feld síðastliðin tvö ár. Díana segir Vestfirði þó ráða við stöðuna núna.
„Við gerum það svo sannarlega en það er alveg ljóst að við verðum að fara að sjá aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu á Vestfjörðum,“ segir Díana.
„Lengi var tímabilið mjög stutt hérna á Vestfjörðum, það voru aðallega hérna ferðamenn yfir hásumarið, en það er svo sannarlega að breytast og við verðum að tryggja að innviðirnir byggist upp í takt við þessa eftirspurn.“
Engin stór verkefni eru í pípunum um þessar mundir á Vestfjörðum en að sögn Díönu er aðallega verið að bæta þær aðstöður sem fyrir voru. Stærri verkefni skili þó meiru.
„Við sjáum að svona stór og flott verkefni eins [útsýnispallurinn] á Bolafjalli, þetta vekur strax svo mikla athygli en samt er í rauninni ekki einu sinni búið að opna þann pall. Við sjáum bara að allt svona hefur svo góð áhrif á ferðaþjónustu á landsbyggðinni,“ segir Díana.
Hún segir landsbyggðina í heild sinni eiga mjög mikið inni og að uppbygging þurfi að vera meiri á mörgum stöðum. Hún vonar að stjórnvöld láti sig málið varða og að nýr ferðamálaráðherra starfi náið með einstaklingum á landsbyggðinni.
„Ég treysti því að ráðherra vinni með okkur í þessu eins og þau hafa svo sem alltaf gert,“ segir Díana. „Við erum bara mjög spennt að sjá hvað setur og nú bara bíðum við eftir 2022 með mikilli gleði.“