
Berglind fékk beint rautt spjald fyrir brot á HK-ingnum Valgerði Ýr Þorsteinsdóttur í fyrri hálfleiknum. Valgerður varð búin að skora fjögur af fyrstu tíu mörk HK í leiknum en var borin meidd af velli í kjölfar brotsins.
„Berglind fær beint rautt spjald fyrir þetta brot á Völu. Stelpur hvað finnst ykkur um þetta? Hún fær bláa spjaldið og allt saman og strákarnir hikuðu ekki,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar.
„Mér finnst þetta vera rautt út af afleiðingunni. Hún dettur það illa. Þetta er ekki eitthvað brútalt brot. Vala hoppar þarna upp og er að fara að senda hann. Hún lendir illa,“ sagði Sunneva Einarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.
„Mér finnst þetta rautt, þetta er bara afleiðingin. Þetta er hættulegt að lenda og ógeðslega vont. Mér fannst samt ekki mikill ásetningur í þessu,“ sagði Sunneva.
„Hún er borin út af á börum. Það fyrsta sem við hugsuðum, held ég allar, var grindin,“ sagði Svava Kristín og Anna Úrsúla var sammála. Valgerði Ýr er nýkomin til baka eftir að hafa eignast barn. Sunneva var reyndar ekki á því að hafa hugsað um það eins og hinar.

Anna Úrsúla var heldur ekki sammála Sunnevu um að Berglind hafi átt að fá rauða spjaldið frá dómurum leiksins.
„Ég er leiðinlega týpan en mér fannst þetta ekki vera rautt spjald. Mér fannst þetta reynsluleysi hjá henni að hjálpa henni ekki aðeins með að taka undir hana,“ sagði Anna Úrsúla og sýndi tökin sem hún hefði notað.
„Hún er ekki að ýta henni til að meiða hana. Hún er í venjulegri stöðu. Jú, Vala dettur illa og hún hefði kannski getað gripið hana. Beint rautt og svo beint blátt, það fannst mér svolítið dýrt,“ sagði Anna Úrsúla.
Það má sjá brotið og umfjöllunina hér fyrir neðan.