Eftir góðan fyrsta leikhluta hrökk allt í baklás hjá Keflavík á meðan Grindavík fann taktinn. Keflavík skoraði 27 stig í fyrsta leikhluta en aðeins 25 í næstu tveimur leikhlutum. Á sama tíma skoraði Grindavík nánast að vild og fór það svo að heimakonur unnu 12 stiga sigur á grönnum sínum, lokatölur 84-72.
Robbi Ryan fór gjörsamlega hamförum í liði Grindavíkur en hún skoraði 31 stig, tók 13 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þar á eftir kom Edyta Ewa Falenzcyk með 26 stig og 12 fráköst.
Daniela Wallen Morillo var stigahæst í liði Keflavíkur með 27 stig ásamt því að taka 13 fráköst og gefa sjö stoðsendingar.
Grindavík í 6. sæti með 8 stig á meðan Keflavík er í 4. sæti með 12 stig.
Í Smáranum mættust botnliðin tvö. Líkt og í Grindavík voru það gestirnir sem byrjuðu betur en eftir að leiða með fjórum stigum að loknum fyrsta hrökk allt í baklás og Breiðablik leiddi í hálfleik. Fór það svo að Blikar unnu nokkuð sannfærandi sigur, 81-74.
Var þetta aðeins annar sigur Blika í deildinni á þessari leiktíð en Skallagrímur er enn án stiga.
Michaela Lynn Kelly var með tvöfalda þrennu í liði Breiðabliks. Hún skoraði 20 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar og taka jafn mörg fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir kom þar á eftir með 18 stig. Hjá Sköllunum var Breana Destiny Bey stigahæst með 21 stig.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.