Þetta kemur fram í tilkynningu frá Löxum og Ice Fish Farm. Þar segir að sameinað félag verði eitt öflugasta fiskeldisfyrirtæki landsins, með starfsemi í fjórum sveitarfélögum.
„Seiðaframleiðsla nýs félags mun samanstanda af þremur seiðaeldisstöðvum í Ölfusi ásamt 50% eignarhlut í seiðastöðinni Ísþór og tveimur seiðaeldisstöðvum í Norðurþingi, á Rifósi og Kópaskeri.
Sjóeldi félagsins verður í þremur fjörðum; Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði en í ferli eru umsóknir um leyfi í Stöðvarfirði og Seyðisfirði. Sameinað félag á 67% hlutafjár í Búlandstindi ehf og sameiginlegur fjöldi starfsmanna er um 200. Sameinað félag er með 36.800 tonn í samanlögðum leyfum og þar af eru 2.300 tonn fyrir ófrjóan fisk. Í umsókn eru leyfi uppá viðbótar 17.000 tonn.
Fyrirtækin verða um sinn rekin í sitthvoru lagi en stjórnendateymi félaganna munu strax fara í að vinna að sameiginlegri uppbygginu og framtíðarsýn,“ segir í tilkynningunni.