Svíþjóð byrjaði leikinn betur og leiddi 3-1 snemma leiks en Frakkland jafnaði metin snögglega og eftir það var leikurinn í járnum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan 15-15 í hálfleik.
Í stöðunni 17-17 skoraði franska liðið fjögur mörk í röð og þar með var í raun aldrei spurning hvort liðið færi áfram.
Lokatölur 31-26 og Frakkland þar með komið í undanúrslit þar sem Danmörk bíður. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Noregur og Spánn.
Mörk franska liðsins dreifðust vel á milli leikmanna í kvöld. Þær Laura Flippes, Coralie Lassource og Alicia Toublanc voru markahæstar með fjögur mörk hver.