Ósk Gunnars á FM957 tók stöðuna á markmanninum en hann er nú einn í einangrun í herberginu sínu.
„Ég er bara peppaður að vera einn af ykkur að horfa á landsliðið,“ segir Björgvin Páll.
„Þetta er búið að vera stórkostlegt mót í alla staði. Þrír leikir og þrír sigrar er ekkert sem gerist á hverju ári hjá okkur. Við erum bara í góðum gír og að spila frábærlega.“
„Auðvitað eru neikvæðar fréttir þessi Covid smit hjá okkur en við erum bara það góðir í handbolta að ég treysti engum öðrum til þess að „covera“ þetta.“
Björgvin Páll slakar ekki á þó að hann hafi smitast af veirunni skæðu. Hann vonast til að komast aftur inn á völlinn áður en mótið klárast. Hann hefur ekki herbergisfélaga í augnablikinu til þess að fá aðstoð við að æfa markvörslurnar en hann hugsar í lausnum og lætur það ekki stoppa sig.
„Ég er bara ánægður að geta djöflast og æft í mínu herbergi og haldið mér við, í formi. Að geta kastað boltum og tennisboltum í vegginn til þess að geta haldið mér í markmannsformi, til þess að gera mig mögulega kláran ef liðið þarf á mér að halda.“
Hann hefur lítil einkenni og vonast til að ná að fá tvö neikvæð PCR próf á næstu fimm dögum til þess að ná að losna úr einangrun áður en mótið klárast.
„Þangað til mun ég bara horfa í sjónvarpinu og vona að við komumst sem lengst til þess að ég hafi einhverja leiki upp á að hlaupa,“sagði Björgvin bjartsýnn um að liðið komist alla leið.
„Ég ætla bara að láta mig dreyma.“
Símaviðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.