Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Almenn innheimta er hætt starfsemi en það sá um innheimtu á kröfusafni Ecommerce 2020, sem veitti meðal annars smálán í nafni Hraðpeninga, Kredia og Smálána.
Dómsmálið er sagt snúast um nokkra tugi þúsunda króna og vera prófmál á aðferðir sem fyrirtæki hafi beitt við innheimtu smálána. Telja Neytendasamtökin innheimtuna ólöglega og innheimtukostnað of háan. Þá hafi eftirlit skort með starfseminni.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í samtali við Fréttablaðið að aðalkrafa þeirra sé að héraðsdómur viðurkenni að innheimtuaðilar verði að kanna lögmæti krafna sinna og fari ekki í „sýndarinnheimtu á kröfum sem eru í hæsta máta vafasamar.“
Úrskurðuðu að félagið hafi brotið lög
Kröfusafn eCommerce 2020 var í fyrra keypt af BPO Innheimtu ehf. Fjármálaeftirlit Seðlabankans komst að þeirri niðurstöðu að BPO Innheimta hafi brotið gegn lögum þegar það hóf innheimtu á áðurnefndu kröfusafni án þess að gera fullnægjandi könnun á kröfunum.
Þá sektaði Neytendastofa fyrirtækið um 1,5 milljón króna síðasta sumar fyrir „umfangsmikil“ og „alvarleg“ brot á markaði.
Neytendasamtökin hafa gagnrýnt að Almenn innheimta hafi starfað án eftirlits og gengið hart fram í innheimtu á smálánakröfum sem voru ólöglegar að mati samtakanna. Úrskurðarnefnd lögmanna komst að þeirri niðurstöðu árið 2020 að Almenn innheimta hafi brotið innheimtulög og veitti eigenda fyrirtækisins áminningu.