Insight lenti á Mars árið 2018 en geimfarinu var ætlað að kanna jarðvirkni og innviði rauðu reikistjörnunnar. Síðan þá hefur farið greint fleiri en 1.300 jarðskjálfta. Sá stærsti þeirra var af stærðinni fimm fyrir um tveimur vikum.
Líklegt er að orka geimfarins klárist í júlí, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Sólarsellurnar framleiða nú aðeins um einn tíunda hluta þeirrar orku sem þær gerðu fyrst eftir lendinguna fyrir að verða fjórum árum.
Gert var ráð fyrir að svona færi en leiðangursstjórarnir vonuðust þó til þess að vindur næði að blása rykinu af sólarsellunum. Bruce Banerdt, yfirvísindamaður leiðangursins hjá Jet Propulsion Lab í Bandaríkjunum, segir að þúsundir hvirfilbylja hafi verið nálægt því að blása rykinu af en enginn þeirra hafi dunið nógu beint á farinu.
„Þetta hefur ekki verið of mikill bölmóður hjá teyminu. Við einbeitum okkur enn að því að stjórna geimfarinu,“ segir hann.
Insight verður annað geimfarið á Mars sem NASA missir á fáum árum vegna ryksins sem hylur nær allt yfirborð nágrannareikistjörnu okkar. Könnunarjeppinn Opportunity komst aldrei aftur af stað eftir að hann lenti í miklum rykstormi sem náði yfir stóran hluta Mars árið 2018