Ný tegund rafhlaupahjóla hefur þá verið tekin í notkun hjá fyrirtækinu. Að sögn Sæunnar Óskar Unnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Hopp Reykjavík, eru þau mun betri en þau gömlu. Auðveldara verður að gera við þau og líftíminn mun meiri.
„Nýju hjólin eru stærri og stöðugri. En með miklu betri jafnvægispunkt. Stýrið er sveigt þannig að þú átt að verða stöðugri á skútunni,“ segir Sæunn Ósk.
Fyrirtækið hefur fengið til landsins tvö þúsund ný hjól sem hafa nú verið tekin í notkun. Alls eru því þrjú þúsund rafhjól frá Hopp í umferð; þúsund gömul og tvö þúsund ný.
En fara nýju hjólin eitthvað hraðar?
„Nei, nei, nei, alls ekki. Við erum bara í 25 kílómetrunum. Þessar fara ekkert hraðar en helstu bæturnar eru að maður heldur miklu betra jafnvægi á þeim. Við hvetjum auðvitað alla til að fara eftir leyfilegum hraða og passa sig vel,“ segir Sæunn Ósk.