Þetta kemur fram í nýjum árshlutareikningi Arion banka og tilkynningu til Kauphallar. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 23,5% samanborið við annan ársfjórðung seinasta árs. Vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst, að sögn bankastjóra. Þá jukust lán til viðskiptavina um 7,9% frá áramótum en hækkunin snýr aðallega að lánum til fyrirtækja sem hækkuðu um 12,5% frá árslokum 2021. Arion banki hagnaðist um 5.818 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.
Gengið var frá sölunni á Valitor þann 1. júlí og koma áhrifin af sölunni að fullu til á öðrum ársfjórðungi. Samið var um söluna fyrir um ári og var hún háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands sem fékkst á öðrum ársfjórðungi.

Kostnaðarhlutfall Arion banka var 50,1% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 42,5% í fyrra. Heildar eigið fé nam 183 milljörðum króna í lok júní en eigið fé lækkaði frá áramótum vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans, samtals að fjárhæð 26,8 milljarða króna. Afkoma tímabilsins kemur til hækkunar á eigin fé.
Þóknunartekjur ekki verið hærri
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að afkoma bankans á fyrri helmingi ársins hafi verið góð og þar skipti mestu máli að kjarnastarfsemi bankans haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti og að gengið hafi verið frá sölu á dótturfélaginu Valitor.
„Jafnframt náðist góður árangur á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Á móti kemur að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið krefjandi sem hefur neikvæð áhrif á fjármunatekjur bankans. Áfram er eigin- og lausafjárstaða bankans sterk og bíður ný endurkaupaáætlun bankans samþykkis eftirlitsaðila,“ segir Benedikt í tilkynningu. Hann bætir við að Arion banki hafi aukið verulega við markaðshlutdeild sína undanfarin misseri á markaði bílafjármögnunar.
Einnig kemur fram í tilkynningu til Kauphallar að eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) hafi verið 23,5% í lok júní og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 19,7%, að teknu tilliti til áhrifa af sölunni á Valitor.
Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 23,1% í lok júní og hlutfall eiginfjárþáttar 1 19,4%.