Hátt eldsneytisverð hefur verið milli tannanna á fólki undanfarin misseri en eldsneytisverð er nú þó komið niður fyrir þrjú hundruð krónur á lítrann. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir að olíufélögin geti þó lækkað verðið enn miera.
„Við erum með vöru sem er mikil eftirspurn eftir en það er fákeppni á markaði þannig að það virðst sem félögin komist upp með að vera að bjóða upp á óeðlilega álagningu, á sumum svæðum sérstaklega,“ sagði Runólfur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Það er virklega lag að lækka eldsneytisverð almennt um land allt þó það séu litlar lækkanir undanfarið þá eru frekari undirliggjandi verðlækkanir og mér þætti ekkert óeðlilegt að seðlabankastjóri myndi tjá sig um þetta líka því þetta hefur áhrif á verðlag almennt, vísitölu og svo framvegis.“
Eldsneytið vegi þungt á vísitölu neysluverðs.
„Þegar samkeppnin er ekki að skila neytendum eðlilegu vöruverði þá er það viðvörun til aðila á markaði að það sé ekki eðlilegt ástand,“ segir Runólfur.
„Við eigum sem neytendur inni töluverða lækkun til viðbótar. Miðað við sögulega samlíkingu, og þá er ég samt að áætla mönnum hærri álagningu hér vegna fjarlægðar og minni markaðar, þá erum við að tala um tuttugu krónur sem við teldum eðlilegt að væri komið niður um þessar mundir.“
Eldsneytið sé hvergi hærra í Evrópu en á Íslandi.
„Stjórnvöld í ákveðnum löndum hafa út af þessu orkuástandi lækkað álögur allavega tímabundið. En þó við séum að bera okkur saman við álíka eða hærri álögur þá erum við samt að bjóða neytendum okkar upp á hærra verð,“ segir Runólfur.