Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynnti það í lok síðustu viku að hann hyggðist hefja samtal við lífeyrissjóðina til að setja ÍL-sjóðinn, gamla íbúðalánasjóðinn, í slitameðferð. Þetta er leið sem myndi spara ríkinu talsverða fjármuni til lengri tíma en á móti fá lífeyrissjóðirnir minna greitt af þeim skuldum sem þeir eiga kröfu á í sjóðnum.
Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum og hagfræði við Háskóla Íslands og stjórnarmann í Almenna lífeyrissjóðnum, gagnrýndi þetta harðlega í Kastljósi í gær og sagði meðal annars að leiðin jafngilti greiðslufalli ríkisstjóðs og skaðaði lánstraust hans.
Bjarni segir þetta kolrangt og allt of stór orð notuð.
„Ég held að þetta sé bara lýsandi fyrir þá sem vilja ekkert gera í málinu. Þeir munu tala fyrir þessu. Og það verður bara að skoða í því ljósi að þetta eru þeir sem hafa hagsmuni í málinu sem eru að tjá sig.“
Það sé ekki forsvaranlegt að gera ekkert í málinu; ÍL-sjóður eigi ekki fyrir skuldum sínum og því myndi ríkisábyrgð sem var sett á skuldir hans 2019 virkjast á endanum.
Betra sé að greiða skuldirnar upp strax. Leiðin skaði alls ekki lánstraust til ríkisins.
„Þetta er svona nokkuð sem að maður sér stundum að þegar þeir sem eiga kröfur á annan að þá vilja þeir teikna upp þá mynd að ef að hann borgi ekki þá muni hans lánstraust skaðast. Og oft gengur það út á það að sá sem skuldar eigi að taka á sig meiri skuldir heldur en hann í raun og veru á að gera samkvæmt skilmálum eða lögum.“
„ÍL-sjóður á ekki fyrir þessum skuldum“
Gagnrýnin hljómi kunnuglega í hans eyrum.
„Mér finnst ég vera að upplifa hérna hluti sem við sáum í uppgjöri við föllnu bankanna og mörg eftirmál þess. Sömuleiðis þegar við vorum að afnema höftin þá var sagt „nú skuluði fara vel með kröfuhafana því annars lána þeir ykkur aldrei aftur pening“. En málið var bara það að við lögðum þá upp með nákvæmlega það sama og ég er að segja hér Það á bara að gera svona mál upp á grundvelli skilmála og þeirra laga sem um efnið gilda,“ segir Bjarni.
Hann var beðinn um að útskýra málið fyrir almenningi sem velti eflaust fyrir sér um hvað málið snúist í raun og veru.
„Þetta snýst um það að þeir sem eru ósáttir eiga skuldabréf. Sum þeirra eiga að lifa til 2044. Þeir vilja fá verðtryggða vexti upp á 3,75 prósent til 2044. Ég er að benda á að sá sem skuldar, ÍL-sjóður, á ekki fyrir þessum skuldum. Við erum að gera eitthvað í því og ræða það mál.“