Vanda var stödd í Frankfurt í Þýskalandi þar sem dregið var í riðla fyrir undankeppni EM karla 2024. Þar voru haldnar ýmsar vinnustofur og fundir þar sem sameiginleg málefni aðildarlanda UEFA voru rædd.
Viðfangsefni Vöndu var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA. Í 19 nefndum á vegum sambandsins eru alls 394 nefndarmenn en aðeins 52 [13 prósent] eru konur. Þar af eru 18 konur sem sitja í sérstakri nefnd UEFA um kvennaknattspyrnu.
„Ég hef unnið að þessu viðfangsefni mánuðum saman og ræddi málið við forseta UEFA í apríl á þessu ári. Ég tók þetta einnig upp á fundi Norðurlandanna í ágúst og fékk fullan stuðning við að taka málið áfram á vettvangi UEFA. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð hjá KSÍ þar sem 47 prósent nefndarmanna eru konur,“ sagði Vanda um málið á vef KSÍ.
Vanda: Það er einlæg von okkar hjá KSÍ og mörgum öðrum knattspyrnusamböndum að þessi vinna verði til þess að konum fjölgi í nefndum og stjórn UEFA. https://t.co/8HZrqi7dqD
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 26, 2022
„Svo má líka geta þess að hlutfall kvenna á meðal þingfulltrúa á ársþingum okkar hefur vaxið stöðugt síðustu ár og aldrei hafa fleiri konur setið þingið en í febrúar á þessu ári, fyrir það ber að hrósa aðildarfélögum KSÍ,“ bætti formaðurinn við.
„Það er einlæg von okkar hjá KSÍ og mörgum öðrum knattspyrnusamböndum að þessi vinna verði til þess að konum fjölgi í nefndum og stjórn UEFA. Raddir kvenna þurfa að heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar og það er mín upplifun að það sé einnig vilji UEFA,“ sagði Vanda að endingu.