Íslendingar eru ekki einungis gestir á ráðstefnunni heldur munu nokkrir koma þar fram. Davíð Helgason, stofnandi Unity, mun taka þátt í pallborðsumræðum um loftslagsfjárfestingar og munu fulltrúar frá Hopp, Avo og Indó koma fram á viðburði þar sem upprennandi stjörnur í frumkvöðlaheiminum fá tækifæri til að kynna sig á stóra sviði ráðstefnunnar.
Þá mun hljóðtæknifyrirtækið Treble koma fram á lokakvöldi Silicon Vikings New Nordics Pitch Competition og orkufyrirtækið Snerpa Power taka þátt í pallborðsumræðum á vegum Norrænu nýsköpunarsetranna.
„Slush laðar til sín helstu fjárfesta á sviði nýsköpunar í heiminum. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári en nú sækja tæplega fimm þúsund sprotafyrirtæki og næstum þrjú þúsund fjárfestingasjóðir Helsinki heim,“ er haft eftir Melkorku Sigríði Magnúsdóttur, stjórnandi Iceland Innovation Week, í tilkynningu.
Á meðal þeirra fjölmörgu íslensku fyrirtækja sem sækja Slush má nefna Smitten, Taktikal, Oz, Lucinity, Ankeri, Evolytes og Empower.