Og hvernig okkur gengur.
Að lifa í þakklæti er eflaust eitthvað sem flestir tengja við að vera almennt markmið og ekkert endilega eitthvað sem kemur starfinu okkar eða starfsframa við.
En hér er ágætt að staldra við.
Það sem rannsóknir hafa nefnilega líka sýnt er að fólk sem lifir í þakklæti nær árangri í lífi og starfi. Þakklæti hefur þannig bein áhrif á það hvernig okkur vegnar í vinnu og starfsframa.
Bandaríski prófessorinn í sálfræði og þakklætisfræðingur, Robert Emmons er einn sem hefur rannsakað mikið áhrif þess að lifa í þakklæti. Samkvæmt honum er þakklæti áhrifaríkasta leiðin okkar til að ná hármarksárangri í frammistöðu í hverju svo sem við viljum ná árangri í. Enda þakklát fyrir hvert skref og hvern áfanga sem við náum. Sem síðan leiðir okkur til enn frekari árangurs.
Hér eru nokkur ráð til að þjálfa okkur í þakklæti og þá sérstaklega með vinnuna okkar í huga.
1. Þrjú atriði á dag
Eftir hvern vinnudag er gott að skrifa niður, eða nefna í huganum, þrjú atriði í vinnunni dag sem gengu vel og þú ert þakklát/ur fyrir.
Þessi æfing er til dæmis tilvalin í bílnum á leiðinni heim, í strætó eða hreinlega þegar við erum að elda heima fyrir eða kaupa út í búð.
Þessi þrjú atriði geta verið hvaða atriði sem er og það skemmtilega við þessa æfingu er að þótt dagurinn hafi verið erfiður, langur eða við kannski ekki upp á okkar besta, er alltaf hægt að finna eitthvað þrennt.
Til dæmis ánægði viðskiptavinurinn sem við töluðum við í dag, að hafa náð að mæta á réttum tíma í morgun þótt það hafi mátt litlu muna eða skemmtilega spjallið við samstarfsfélaga við kaffivélina í dag.
Ef þú skrifar niður þessi atriði á miða, er mælt með því að þú hengir miðan upp á tölvuna þína eða búir þér til rafrænt form til að nota í vinnunni, til minnis um þakklætið þitt.
2. Að gefa hrós í vinnunni
Önnur mjög skemmtileg æfing er að gefa einhverjum vinnufélaga, viðskiptavini eða birgja hrós. Því hrós er ókeypis gjöf sem gefur alltaf. Bæði þeim sem fær hrósið og okkur sjálfum. Það fylgir ákveðin vellíðunartilfinning að gefa hrós.
Að gefa hrós getur verið mjög einfalt. Til dæmis að hrósa með því að segja „já, mjög góður punktur hjá þér, frábært,“ í einhverju samtali við viðskiptavin, að hrósa vinnufélaga fyrir verkefni, frammistöðu eða jafnvel klæðaburð, nýja klippingu og svo framvegis.
Allt sem hjálpar okkur að virkja jákvæðu orkuna okkar, eflir okkur í að verða þakklát fyrir það sem við eigum og höfum.
3. Þakkarmappan þín/eða bókin
Loks er það að halda utan um þakkir og hrós sem þér berast í vinnunni. Til dæmis þegar að við fáum tölvupóst frá ánægðum samstarfsaðila eða viðskiptavini sem hrósar okkur sérstaklega fyrir eitthvað. Í staðinn fyrir að verða ánægð um stund en gleyma síðan umræddum tölvupósti, er um að gera að færa hann í Þakkarmöppu sem hægt er að búa til í tölvupóstinum.
Því fleiri póstar, því meira eflumst við. Því auðvitað fylgir því mikil ánægjutilfinning fyrir okkur að sjá hversu vel okkur gengur og að stundum sé eftir því tekið sérstaklega.
Ef þetta er leið sem virkar fyrir þig, en þér finnst vanta að skrá þakkir eða hrós sem þú færð til dæmis munnlega í vinnunni, er auðvelt að safna þeim hrósum líka með því að senda okkur sjálfum þakkarpóst þar sem við erum búin að skrá tiltekið hrós eða þakkir, frá hverjum það er og fyrir hvað.
Eða hreinlega að búa til okkar eigin þakkarbók. Hún gæti verið lítil stílabók eða vasabók sem við höfum alltaf meðferðis. Eða eitthvert rafrænt form þar sem við höldum utan um þakkirnar til okkar í símanum.
Að æfa sig í þakklæti er æfing sem skilar sér mjög fljótt. Og er samkvæmt rannsóknum eitthvað sem augljóslega getur margborgað sig.