Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að fyrsta flugið verði 3. apríl 2023. Flogið verður tvisvar í viku fram til loka októbers 2023.
Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að þetta sé spennandi skref, enda sé Varsjá borg sem lætur engan ósnortinn.
„Ég er sannfærður um að hún mun ekki aðeins höfða til þeirra rúmlega 20 þúsund Pólverja sem búa á Íslandi heldur einnig Íslendinga sjálfra. Þetta er fimmti nýi áfangastaðurinn sem við kynnum á skömmum tíma sem byggir undir metnaðarfullt leiðakerfi sem við munum bjóða upp á árið 2023,“ segir Birgir.
Play hefur á síðustu dögum tilkynnt að til standi að hefja áætlunarflug til Stokkhólms í Svíþjóð, Aþenu í Grikklandi og Hamborgar í Þýskalandi.
Að sama skapi var greint frá því á vef Túrista í dag að Play muni gera sex vikna hlé á fluti til Stewart-flugvallar í New York-ríki eftir áramót. Segir Birgir í samtali við Túrista að það sé gert þegar eftirspurnin sé hvað veikust, auk þess að hátt olíuverð hafi einnig sitt að segja.