Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að í hartnær sextíu ára sögu Landsvirkjunar hafi uppbygging stóriðju jafnan fylgt nýjum stórvirkjunum. Þannig reis álverið í Straumsvík samhliða Búrfellsvirkjun, járnblendið á Grundartanga fylgdi Sigöldu, álver Alcoa Kárahnjúkavirkjun og síðast á Þeistareykjum var virkjað vegna kísilvers á Bakka. Áður hafði Áburðarverksmiðjan fylgt Írafossvirkjun.

Þessu tímabili segir forstjóri Landsvirkjunar lokið.
„Þannig að við erum ekki að sjá virkjanir tengdar einstökum viðskiptavinum. Enda er fjárhagur Landsvirkjunar orðinn þannig að það þarf ekki að gera það. Við getum í raun og veru byggt virkjanir út á efnahagsreikninginn okkar óháð því hvort það er viðskiptavinur eða ekki,“ segir Hörður Arnarson.
Nýjar virkjanir muni mæta fjölbreyttari hópi smærri kaupenda.
„Ja, svona umhverfisvænni iðnaði. Við erum að sjá matvælavinnslu, við erum að sjá hátækniiðnað, við erum að sjá ýmsan svona grænan áhugaverðan iðnað. Svo eru náttúrlega orkuskiptin,“ segir Hörður og nefnir sem dæmi framleiðslu rafeldsneytis.

Hann segir Landsvirkjun þó áfram vilja styðja við stóriðjuna, svo sem við minniháttar stækkanir.
„Að þeir haldi áfram að þróast. Að bæta sína framleiðslu, að auka sína nýtni, meiri háframleiddar vörur.
Og við viljum halda áfram að styðja þau fyrirtæki frekar. Enda eru þau eiginlega lykillinn að þessari góðu afkomu Landsvirkjunar. Það eru þessi traustu, stóru, alþjóðlegu fyrirtæki.“
Þau sjónarmið heyrast að í stað þess að virkja meira vegna orkuskipta verði orkusölu hætt til stóriðju. Forstjóri Landsvirkunar telur skynsamlegra að halda stóriðjunni.
„Fyrir utan það að samningar kveða á um það. Og við teljum að það sé í raun og veru óábyrg leið að í raun og veru að flytja framleiðslu annað og leysa orkuskiptin þannig.
Þannig að við teljum að það sé rétta leiðin að auka orkuvinnslu á svipaðan hátt og við höfum gert áður. Og við teljum að það sé hægt að gera það í góðri sátt við bæði náttúruna og samfélagið,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: