Mótið fór fram í Clermond Ferrand í Frakklandi en það var fyrrum Ólympíusmeistarinn Renaud Lavillenies sem var mótshaldari en Duplantis og Lavillenies er vel til vina.
Duplantis hafði tryggt sér sigur á mótinu þegar hann var sá eini sem komst yfir 6,01 metra og þá hóf hann að reyna við heimsmetið. Fyrstu tvær tilraunirnar misheppnuðust en í þriðju tilraun flaug hann yfir og fagnaði innilega ásamt Lavillenies.
„Þetta er hans mót og mig langaði virkilega að setja heimsmet fyrir hann. Hann er eins og stóri bróðir fyrir mig og hefur hjálpað mér síðan ég var sautján ára gamall en þá var hann fyrirmyndin mín. Þetta var jafn mikið fyrir hann eins og það var fyrir mig,“ sagði Duplantis í viðtali við Aftonbladet eftir mótið.
Þetta er í sjötta sinn sem Duplantis setur nýtt heimsmet í stangarstökki. Hann gerði það í fyrsta sinn þegar hann hoppaði yfir 6,17 metra í Póllandi árið 2020 en hefur síðan þá bætt eigið heimsmet í fimm skipti.
Duplantis er núverandi heims-, Ólympíu og Evrópumeistari en Lavillenies var heimsmethafi í sex ár eftir að hafa slegið 20 ára gamalt met goðsagnarinnar Sergei Bubka árið 2014.