„Já, við sjáum og vitum að þetta er hægt nú þegar. Það hafa vísindin sannað. Hins vegar má búast við því að almenningur fari ekki að kynnast þessu fyrr en eftir kannski 10-15 ár. Rannsóknir, þróun, framleiðsla og verðhjöðnun fyrir markaðinn tekur bara þennan tíma,“ segir Greta.
Greta er íslensk í móðurlegg og útskrifaðist nýlega með PHD í taugaverkfræði frá ETH háskólanum í Zurich.
Og það sem meira er:
Nýlega tilkynnti Forbes nafn Gretu á lista yfir framúrskarandi áhugaverða einstaklinga á sviði Heilsu og vísinda, sem eru enn undir þrítugu en hafa þegar skarað fram úr á sínu sviði.
Mér finnst ég reyndar rosalega íslensk.
Mamma er íslensk og er satt best að segja besta manneskjan sem er til í heiminum. Ég er mjög náin henni og hef alltaf upplifað íslensku ræturnar mínar mjög sterkar.
Enda segi ég stolt að ég sé hálfur Íslendingur og hálfur Ítali,“
segir Greta og brosir.
Við skulum heyra meira um þessa ungu konu, sem Forbes hvetur fyrirtækja- og heilbrigðisgeirann um allan heim að fylgjast með.
Átti að finna mann og eignast börn
Greta er fædd og uppalin í Mílanó á Ítalíu. Hún segir æskuna sína hafa einkennst af mjög karllægu umhverfi.
,,Pabbi sagði við mig strax á unglingsaldri að ég ætti að finna mér mann og eignast börn, það væri mitt hlutverk,“ segir Greta og ljóst er að henni er full alvara um að þetta voru skilaboðin sem hún ólst upp við frá föður sínum.
„En ég vissi alltaf að ég vildi meira. Að ég vildi stefna á sjálfstæðan og góðan starfsframa. Ég valdi fyrst að fara í sálfræði í háskólanum en í meistaranáminu og síðar doktorsnáminu ákvað ég smám saman að færa mig nær taugavísindum og verkfræði.“
Fyrir fjórum árum síðan flutti Greta til Zurich í Sviss. Þar hefur hún starfað að ótrúlega mörgum spennandi verkefnum. Meðal annars þeim sem lýst var hér að ofan: Þar sem lamaðir geta gengið á ný og fólk sem misst hefur alla snertitilfinningu, fer að finna fyrir snertingu aftur.
Í dag er hún framkvæmdastjóri fyrirtækisins MYNERVA. Greta er ein stofnenda fyrirtækisins, sem upphaflega hét MyLeg.
MYNERVA vinnur að því að þróa tækni sem dregur úr sársauka og endurheimtir snertiskyn án útlimunar hjá fólki sem er með taugakvilla vegna sykursýki. Síðar meir mun sú tækni mögulega nýtast fleirum. Til dæmis fólki sem hefur hlotið mænuskaða eða fengið heilablóðfall.
Þessi vara sem fyrirtækið er að þróa kallast MYSENSATION og hefur nú þegar hlotið þó nokkrar viðurkenningar.

Kærastinn þurfti að bíða
Greta segir að þótt allur hennar tími og ástríða fari í starfið í dag, muni það nú þó rætast hjá föður hennar að á endanum giftist hún og eignast börn.
„Kærastinn minn býr reyndar í Mílanó en ég fer oft þangað um helgar því að frá Zurich eru aðeins þrír tímar með lest til Mílanó. Við kynntumst sem unglingar en þótt hann hafi orðið hrifinn strax, var ég ekkert spennt fyrir honum lengi á þann háttinn,“ segir Greta og það er stutt í hláturinn.
Sagan er þó sæt saga. Því þegar að kærastinn sá Gretu fyrst, var hann staddur á kaffihúsi og að segja við vini sína að hann langaði til að kynnast fallegri konu sem væri klár og að gera spennandi hluti.
Í því gengur Greta inn á kaffihúsið og þá segir kærastinn við vini sína:
„Þarna er hún komin.“
Greta var þó ekki á þeim buxunum fyrst um sinn en segir að þeim hafi þó strax orðið vel til vina og næstu árin á eftir þróaðist með þeim afar góð vinátta.
Um tíma fór hann að slá sér upp með konu og hún í samband við ungan mann. Loks kom þó að því að kærastinn hafði samband við hana, þau voru þá bæði á lausu og hann stakk upp á drykk.
„Og það má segja að við séum búin að vera mjög hamingjusöm saman síðan,“ segir Greta og brosir.
Hún segir að því miður hafi hún ekki komið mikið til Íslands síðan fyrir Covid.
„„Ég á samt margt frændfólk þar og frændsystkini. Ég á líka einn bróður sem býr með annan fótinn á Íslandi en starfar nú á Indlandi, því að áður en foreldrar mínir tóku saman, átti mamma fyrir tvo syni. Þegar hún flutti til Ítalíu, varð annar sonurinn eftir hjá föður sínum á Íslandi en hinn flutti með henni út.“
Þess má geta að móðir Gretu er Olga Clausen, ræðismaður Íslands í Mílanó.

Listi Forbes
En hvernig ætli það hafi komið til að Forbes valdi að tilnefna Gretu á lista?
„Þeir höfðu samband við prófessorinn minn, Stanisa Raspopovic, í doktorsnáminu og spurðu hann hvort það væri einhver nemandi hjá honum sem hann myndi vilja nefna fyrir þennan lista og benda á. Sem hann gerði og er ég honum afar þakklát fyrir það. Í janúar á þessu ári, höfðu þeir síðan samband við mig og báðu mig um að svara fullt af spurningum og veita þeim ýmsar upplýsingar, sem ég og gerði.“
Spurningarnar segir Greta að hafi verið af ýmsum toga. Næstu vikurnar á eftir vissi hún svo sem ekkert meira um stöðuna hjá þeim.
„Það var síðan svo skemmtilegt að þann 10.mars var stór dagur hjá mér í vinnunni sem ég var mjög spennt fyrir. Til að bæta við gleðina, vaknaði ég þennan morgun og las tölvupóst frá Forbes um að ég hefði verið valin á þennan lista,“ segir Greta og bætir við:
Ég er auðvitað fyrst og fremst mjög stolt og ánægð.
En viðurkenni líka að þessi listi hefur nú þegar haft gríðarlega mikil áhrif og góð.
Þetta er einfaldlega listi sem getur opnað mjög margar dyr.“
Til samanburðar nefnir Greta að síðustu árin hafi hún verið ótrúlega heppin og hlotið mörg verðlaun fyrir bæði nám og starf.
„Ekkert af þeim verðlaunum komast samt í hálfkvisti við þau áhrif sem nafnalisti Forbes hefur.“
Hvernig leið þér þegar þú fékkst fréttirnar?
„Ég var auðvitað himinlifandi! Lét kærastann og fjölskylduna auðvitað strax vita og er einfaldlega enn í skýjunum!“ svarar Greta stolt.

Stolt af Íslandi
Greta talar og skilur íslensku. Kærastinn hennar Paolo starfar líka við nýsköpun en fyrirtækið sem hann starfar hjá hefur þróað app sem meira að segja Íslendingar geta nýtt sér, en appið notar gervigreind til að gera maraþonhlaupurum fært að eiga „Selfie“ úr hlaupum sem það tekur þátt í og fleira.
Þar sem Íslendingar geta meira að segja nýtt sér appið, liggur beinast við að spyrja: Hvað heitir þetta app?
„Píka,“ svarar Greta og skellihlær.
Já, það hljómar kannski skringilega en nafnið er reyndar stafað PICA með c-i og segir Greta að nafnið sem fólk sækir til að hlaða appinu niður sé „Get Pica.“
„En ég hef oft sagt honum að þetta nafn hljómi nú eflaust frekar dónalega fyrir Íslendinga,“ segir Greta og er greinilega skemmt.
Greta segist fylgjast ágætlega með fréttum af Íslandi og finnst fá lönd jafn falleg og Ísland.
Ég segi oft við fólk að landslagið á Íslandi sé þannig að upplifunin sé í raun eins og maður sé staddur á annarri plánetu.
En mér finnst líka svo margt annað jákvætt á Íslandi. Til dæmis hversu framarlega Íslendingar eru í jafnréttismálum.
Fyrir nokkrum dögum sá ég líka að hlutfallslega fjárfesta Íslendingar hvað mest í nýsköpun og það finnst mér afar jákvætt að heyra.“
Í framtíðinni sér hún fyrir sér að þau muni búa í Bandaríkjunum.
„Það er einfaldlega vegna þess að geirinn sem ég starfa í er langstærstur og öflugastur í Bandaríkjunum. Ég sé því alltaf fyrir mér að fyrirtækið mitt, MYNERVA, muni enda með höfuðstöðvar sínar þar.“
Í ljósi þessa má án efa telja líklegt að Forbes listinn góði hafi enn veigameiri þýðingu, eða hvað?
„Jú án efa. Listi Forbes er að hafa mun meiri áhrif nú þegar á tækifæri fyrir mig en ég hef áður kynnst og þegar að því kemur að flytja fyrirtækið til Bandaríkjanna, þá hefur þessi nafnalisti mikla vigt.“
Hvar sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?
„Ég sé fyrir mér að vera enn framkvæmdastjóri hjá MYNERVA og að við séum orðin nokkuð stórt fyrirtæki og leiðandi á okkar sviði, með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Ég sé líka fyrir mér að vera búin að gifta mig og eignast tvö börn; strák og stelpu,“ svarar Greta en bætir síðan brosandi við:
„Eða allavega að vera búin að gifta mig!“