Curry tekur um þessar mundir þátt á stjörnugolfmótinu American Century Championship þar sem stjörnur á borð við Aaron Rodgers, Ray Allen, Ray Romano og Miles Teller leika listir sínar á golfvellinum.
Mótið er punktakeppni og trónir Curry á toppnum eftir tvo hringi með 50 punkta, þremur meira en Joe Pavelski og Mardy Fish sem eru með 47 punkta í 2.-3. sæti.
Það sem hjálpaði Curry líklega hvað mest að ná forskoti á mótinu var annars vegar örn á fjórðu holu á Edgewood Tahoe South-vellinum á fyrsta hring og svo hola í höggi á sjöundu holu í gær. Fyrir örninn nældi Curry sér í sex punkta og átta punkta fyrir að fara holu í höggi.
Eins og gefur að skilja var Curry hæstánægður þegar hann sá kúluna detta ofan í holuna og fagnaði eins og óður maður með því að hlaupa alla leið frá teignum og inn á flöt til að staðfesta að kúlan hafi vissulega endað ofan í holunni. Þetta skemmtilega atvik má sjá í Twitter-færslunni hér fyrir neðan.
STEPH CURRY HOLE-IN-ONE.
— Hoop Central (@TheHoopCentral) July 15, 2023
pic.twitter.com/7ONrBCKdfM