Grindvíkingurinn Guðjón Pétur Lýðsson var sagður hafa setið fyrir leikmanni Gróttu við búningsklefana og í kjölfarið upphófust mikil læti þar sem margir komu við sögu.
„Við vorum bara tveir þarna og svo kom eitthvað fólk og mér var nú bara ýtt inn í klefa og það urðu nú einhver slagsmál hjá öðrum en mér eftir það. Þannig að ég held að þessi saga sé að verða helvíti skemmtileg,“ sagði Guðjón Pétur við Vísi eftir leik.
„Þetta voru bara einhverjar ryskingar og áfram gakk. Þetta er í svona fimmhundruðþúsundasta skipti sem maður hefur orðið vitni af einhverju svona í lífinu.“
Vísir fékk í kjölfarið nokkrar ábendingar um að Ívan Óli Santos, leikmaður Gróttu, hefði verið beittur kynþáttaníði í látunum.
Í upprunalegri frétt Vísis um málið var sagt að orðrómur hefði verið um að Guðjón Pétur væri sá seki þar. Það var dregið til baka í uppfærðri frétt daginn eftir og Vísir hefur nú sannreynt að Guðjón kom þar hvergi nærri. Íþróttadeild biður Guðjón Pétur afsökunar á því að hafa dregið nafn hans í þann anga málsins á því stigi.
Dómur í málinu á morgun
Vísir hefur talað við fjölda manns vegna málsins. Einhverjir sem voru í átökunum töldu sig hafa heyrt kynþáttaníð en geta ekki bent á hvaðan það kom enda voru margir í hasarnum eins og áður segir.
Sá angi málsins var heldur ekki til umfjöllunar hjá aganefnd í gær og verður ekki meira aðhafst vegna meints kynþáttaníðs af hálfu félaganna.
Slagsmálin voru aftur á móti á borði aganefndar og hafa félögin verið beðin um skila greinargerð vegna þeirra. Úrskurður aganefndar út af hasarnum ætti að liggja fyrir á morgun.