Á þriðjudag tilkynnti Hermoso málið formlega til embættisins og nú hefur ákæra verið lögð fram. Rubiales kyssti Hermoso á munninn fyrir framan alþjóð þegar Spánn fagnaði heimsmeistaratitlinum í Ástralíu á dögunum. Koss sem var ekki með samþykki Hermoso.
Eftir að hafa tekið mál Hermoso til greina tilkynnti saksóknaraembættið í dag að Rubiales yrði ákærður fyrir kynferðisofbeldi og ólögmæta nauðung.
Saksóknari hefur lagt fram ákæru á hendur Rubiales og vísað málinu til dómskerfisins. Það er í höndum dómara að taka ákvörðun um hvort málið verði tekið til formlegrar rannsóknar. Því næst yrði tekin ákvörðun um hvort málið fari fyrir dómstóla eða það látið niður falla.
Rubiales hefur verið boðaður til skýrslutöku.
„Saksóknari óskar eftir því að Rubiales mæti til skýrslutöku sem sakborningur og Jenni Hermoso sem fórnarlamb,“ segir í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu. Þá hefur verið óskað eftir upplýsingum frá lögregluyfirvöldum í Ástralíu þar sem atvikið átti sér stað.
Refsing fyrir kynferðisbrot á Spáni getur verið frá sektum upp í fjögurra ára fangelsi.