„Nei ég myndi nú ekki segja að allt hafi gengið upp í kvöld, en þetta var mjög góð frammistaða,“ sagði Heimir í viðtali eftir leik kvöldsins.
„Blikar voru mikið betri í þessum leik heldur en í leiknum fyrir tveimur vikum. Þeir breyttu aðeins til og það tók okkur smá tíma að komast inn í leikinn. En annars fannst mér við vera virkilega flottur í þessum leik sem og í síðasta leik.“
Heimir talaði aðeins ítarlegra um það hvað liðið hans gerði vel.
„Við náðum að halda boltanum vel innan liðsins sem er mikilvægt gegn Blikum sem eru mjög gott pressulið. Við sýndum hugrekki og baráttu og það var lykilinn að þessu.“
Heimir talaði síðan aðeins um Kjartan Kára sem yfirgaf völlinn í sjúkrabíl.
„Já ég var aðeins að spurjast fyrir um hann inn í klefa og það er jákvæðar fréttir að hann finnur fyrir öllum líkamanum þrátt fyrir sársauka í svæðinu við hálsinn. Það fer auðvitað alltaf um mann þegar svona gerist og það var erfitt að missa hann úr leiknum þar sem hann var búinn að spila vel,“ sagði Heimir að lokum.