Stefnt er að því að ferjan sigli frá Hafnarfirði í dag eftir breytingar og endurbætur í Vélsmiðju Orms og Víglundar.
„Við vonumst til að geta siglt frá Hafnarfirði um miðjan dag. Ætli við séum ekki sjö til átta tíma á leiðinni þannig að við verðum í Stykkishólmi einhvern tímann í kvöld,“ sagði Matthías Arnar Þorgrímsson, skipstjóri á Baldri, í samtali við fréttastofu fyrir hádegi.
Uppfært klukkan 17:50: Áætlað er að Baldur sigli af stað vestur í Stykkishólm um klukkan 18:30.

Þetta verður þó ekki í fyrsta sinn sem ferjan kemur til sinnar nýju heimahafnar. Á leiðinni frá Norður-Noregi, þaðan sem hún var keypt notuð, sigldi hún norður fyrir landið og inn á Breiðafjörð þann 20. september og prófaði þá ferjubryggjurnar á Brjánslæk og í Stykkishólmi.
Vegagerðin hefur boðið til formlegrar móttökuathafnar í Stykkishólmi milli klukkan 15 og 17 á morgun, föstudag. Þá gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að þiggja kaffi og kökur um borð í Baldri og skoða farþegarými skipsins.

Stefnt er að því að fyrsta áætlunarsigling skipsins yfir Breiðafjörð verði á sunnudag, 19. nóvember, að sögn Jóhönnu Óskar Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Sæferða, sem munu annast rekstur ferjunnar. Íbúar norðan Breiðafjarðar fá tækifæri til að skoða ferjuna á Brjánslæk á sunnudag milli klukkan 17 og 18.
Jóhanna segir að fram til áramóta verði haldið sömu áætlun og gamla ferjan sigldi á. Sú áætlun verði endurskoðuð eftir áramót þegar reynsla verður komin á nýju ferjuna. Hún er hraðskreiðari en sú fyrri og eru því vonir bundnar við að hægt verði að stytta siglingartímann yfir Breiðafjörð, jafnvel niður undir tvær klukkustundir.
Fjallað var um nýja Baldur í frétt Stöðvar 2 í síðustu viku, sem sjá má hér: