Um er að ræða verslanirnar Aurum, Álafoss, Arctic Explorer, Collections, Fjall Raven, Gull og Silfur, Icemart á Laugavegi, Icemart á Skólavörðustíg, Islandia, Levi‘s, Lundinn, Nordic Market á Laugavegi 25, Nordic Market á Laugavegi 51, Nordic Store og verslun Guðsteins.
Í skjalinu sem fylgir ákvörðuninni segir meðal annars, í tilfelli verslunar Guðsteins:
„Með vísan til alls framangreinds, sem og að teknu tilliti til meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, og með hliðsjón af sektarákvörðunum í sambærilegum málum þykir Neytendastofu hæfilegt að leggja á Vaðmál og Glingur ehf. stjórnvaldssekt að fjárhæð 50.000 kr. (fimmtíu þúsund krónur). Sektina skal greiða í ríkissjóð eigi síðar en þremur mánuðum frá dagsetningu ákvörðunar þessarar.“
Í sambærilegu skjali sem snýr að Nordic Market segir að Neytendastofa sekti þá verslun um sem nemur hundrað þúsund krónum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef neytendastofu en í haust skoðaði stofan ástand verðmerkinga verslana á Laugavegi sem og í aðliggjandi götum. Farið var í 109 verslanir og kannað hvort vörur væru verðmerktar auk þess sem kannað var sérstaklega hvort verðmerkingarnar væru sýnilegar í útstillingum. Í fyrri skoðun voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar 43 verslana.
Í skoðun sem var fylgt eftir hjá þessum 43 verslunum höfðu 28 verslanir bætt sig þannig að ekki þótti tilefni til frekari aðgerða hjá þeim.