Juventus þurfti á sigri að halda til að komast á topp deildarinnar. Það tók gestina vissulega tæpa klukkustund að brjóta ísinn en eftir að hann var brotinn var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Dušan Vlahović var eins og svo oft áður allt í öllu í sóknarleik gestanna. Hann skoraði fyrsta mark leiksins á 59. mínútu eftir undirbúning Andrea Cambiaso og annað markið innan við tíu mínútum síðar eftir sendingu Weston McKennie.
Varnarmaðurinn Bremer gulltryggði svo sigurinn með þriðja marki Juventus þegar fimm mínútur voru til leiksloka, loktölur 0-3.
Juventus trónir nú á toppi Serie A með 52 stig eftir 21 leik. Inter er með stigi minna í 2. sæti en á leik til góða. AC Milan er í 3. sæti með 45 stig.