Sveindís er mætt aftur í íslenska landsliðið eftir meiðsli í haust, fyrir leikina mikilvægu við Serba í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn er ytra á morgun, klukkan 15 að íslenskum tíma, en sá seinni á Kópavogsvelli á þriðjudag klukkan 14:30.
Sveindís hefur sem leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi spilað leiki þar sem áhorfendamet hafa verið sett síðustu misseri, til að mynda fyrir framan fullan Nou Camp í Barcelona og í úrslitaleikjum þýska bikarsins og Meistaradeildar Evrópu í fyrra. Þá var hún í landsliðinu á afar vel heppnuðu EM í Englandi 2022.
Hún er því vel meðvituð um uppganginn í knattspyrnu kvenna en þykir ljóst að annað sé uppi á teningnum í Serbíu, eins og fram kom í viðtali við Sveindísi á RÚV.
„Við erum ekkert mikið að pæla í kvennaboltanum hér“
„Mér finnst mjög mikill áhugi á fótbolta í Þýskalandi. Þetta er auðvitað allt á uppleið á Íslandi. Þegar ég var að byrja í fótbolta vorum við ekki margar stelpur að æfa. Núna eru bara allar stelpur í fótbolta liggur við. Mér finnst þetta allt vera á uppleið en ég veit ekki með Serbíu,“ sagði Sveindís og bætti við:
„Ég tók leigubíl frá flugvellinum upp á hótelið og talaði við leigubílstjórann. Hann sagði bara: „Fótbolta? Við erum ekkert mikið að pæla í kvennaboltanum hér“. Ég bara: „Já, ókei“. Auðvitað er það leiðinlegt en þau eru bara eftir á hérna. Vonandi breytist það einhvern tímann.“
Unnu Þýskaland fyrir tveimur árum
Þrátt fyrir orð leigubílstjórans hefur kvennalandslið Serbíu gert ágæta hluti undanfarin ár, þar sem hæst ber magnaður sigur á einu besta landsliði heims, Þýskalandi, 3-2 í undankeppni HM fyrir tveimur árum. Liðið er í 36. sæti styrkleikalista FIFA en Ísland í 15. sæti.
Ísland og Serbía mætast vegna þess að Ísland endaði í 3. sæti síns riðils í A-deild Þjóðadeildarinnar, en Serbía í 2. sæti síns riðils í B-deild. Liðið sem vinnur umspilið leikur í A-deildinni í ár en tapliðið í B-deild. Að leika í A-deildinni hefur aukið mikilvægi í ár því aðeins lið þaðan geta komist beint á EM 2025, öll lið í A-deild eru örugg um að komast í umspil um EM-sæti, og umspilsleið A-deildarliðanna er þægilegri en liða úr B-deild.