Ekki er um hópuppsögn að ræða. Hjá Alvotech starfa rúmlega þúsund manns, en í lögum um hópuppsagnir segir að hjá fyrirtækjum með þrjú hundruð eða fleiri starfsmenn þurfi að segja upp þrjátíu manns til þess að þær falli undir hópuppsögn.
Greint var frá uppsögnum hjá lyfjafyrirtækinu Alvotech í gær, en þá lá ekki fyrir hversu mörgum hefði verið sagt upp.
Fyrir síðustu mánaðamót var greint frá því að fimmtán starfsmönnum hefði verið sagt upp hjá Alvotech.
Aðfaranótt laugardags tilkynnti félagið að það hefði fengið grænt ljós frá Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna til sölu og markaðssetningar í Bandaríkjunum á Simlandi (adalimumab-ryvk) sem er líftæknilyfjahliðstæða Humira.
Verð á bréfum í félaginu rauk upp á mánudaginn eftir tilkynninguna en hefur fallið síðan. Verðið er nú aðeins lægra en það var áður en tilkynningin um grænt ljós FDA barst um helgina.