Turpin er 41 árs og hefur þegar dæmt leiki á fjórum stórmótum; EM 2016 og 2021, og HM 2018 og 2022, eða alls níu leiki á stórmótum.
Hann dæmir í frönsku 1. deildinni og hefur einnig dæmt fjölda leikja í Evrópukeppnum félagsliða. Síðast dæmdi hann leik Arsenal og Porto í Meistaradeild Evrópu, þegar fjöldi fólks grínaðist með það að hann hlyti að vera bróðir Leandro Trossard, leikmanns Arsenal, því svo líkir væru þeir.
UEFA appointed Trossard s twin brother as referee for Arsenal vs Porto. This should be Investigated by European Courts! pic.twitter.com/Rp51fPe05Q
— City Chief (@City_Chief) March 12, 2024
Hann dæmdi einnig til að mynda úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum, þegar Real Madrid vann Liverpool 1-0.
Dæmdi víti á Arnór Ingva
Turpin sá um dómgæsluna síðast þegar Úkraína átti heimaleik við Ísland, í undankeppninni fyrir HM 2018. Sá leikur fór 1-1 eftir að Alfreð Finnbogason kom Íslandi snemma yfir en Andriy Yarmolenko jafnaði metin.
Turpin dæmdi vítaspyrnu á Ísland tæpum tíu mínútum fyrir leikslok, eftir brot Arnórs Ingva Traustasonar á Bohdan Butko, en Yevhen Konoplyanka skaut í stöngina úr vítinu.
Hann dæmdi svo aftur leik hjá Úkraínu fyrir fimm árum, í markalausu jafntefli við Portúgal í undankeppni EM þar sem gula spjaldið fór aðeins einu sinni á loft.
Turpin verður með franskt dómarateymi með sér og mun Jerome Brisard sjá um hlutverk myndbandsdómara.
Leikurinn fer fram á Wroclaw-leikvanginum í samnefndri borg, á þriðjudag eins og fyrr segir, og hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma. Verði jafnt eftir 90 mínútur tekur við framlenging og svo mögulega vítaspyrnukeppni, þar til að annað liðið tryggir sér sæti á EM í Þýskalandi.