„Það er alltaf ótrúlega gaman að vera í flottum fötum á sviði en það er ekki þægilegt. Þetta er eins og að fara úr brjóstarhaldaranum þegar maður kemur heim og vill bara líða vel,” segir söngkonan Íris Hólm um keppnisbúning íslenska Eurovison-hópsins. Íris er ein af bakröddum Heru Bjarkar.
Þá er keppendum óheimilt að klæðast keppnisbúningunum utan sviðsins.

Umræddur kósýgalli gegnir mikilvægu hlutverki að sögn Villa Óskar Vilhjálmssonar, sem er ein af bakröddum Heru: „Við náum jarðtengingu og spörum orku fyrir sviðið. Þetta er eins og að teygja eftir æfingu og gera sig tilbúin fyrir næstu átök. Gallinn er svo mikil skil á milli sviðsspennunar og undirbúningsspennunnar. Spennustigið verður að vera rétt og það þarf að passa að fara ekki í yfirspennu,” segir Villi Ósk.
Hverfandi líkur á þátttöku í lokakeppninni
Hera Björk Þórhallsdóttir keppir fyrir Íslands hönd en hún stígur á svið í Malmö í kvöld en keppnin er sýnd í beinni útsendingu á RÚV klukkan sjö. Hera flytur lagið Scared of Heights og er númer átta í lagaröð kvöldsins. Veðbankar telja hverfandi líkur á að hún taki þátt í lokakeppninni á laugardagskvöld.
Þungt eins og sandpoki
Sem fyrri segir klæðist Hera Björk gylltum samfestingi í atriðinu með perlukögum. Samfestingurinn er hannaður af Sylvíu Lovetank en hún hannaði líka kjólinn sem Hera var í í Söngvakeppninni. Efnið fann hún í London en um er að ræða gyllt perluefni.
„Þannig þetta er alveg svakalega sparklí á sviðinu og býr til þetta mikla endurkast. Þetta er líka mjög þungt, þetta er dálítið eins og að ganga með sandpoka í fanginu og míkrafón í hinni en þetta er svo gordjöss,“ sagði Hera í samtali við Vísi á dögunum.
Þá gaf hún líka lítið fyrir spár veðbanka og sagði íslenska hópinn ekkert spá í þeim. Einbeitingin væri öll á að skila atriðinu af sér með sóma fyrir land og þjóð í kvöld.