Maður verður hálf kjaftstopp að koma inn á safnið á Hlöðum því það er svo stórt og mununum skemmtilega raðað upp út um allt hús. Þegar Gauji tekur á móti hópum þá er hann uppi á sviði og talar í hljóðnema þannig að allt, sem hann hefur að segja skili sér örugglega til gesta.
„Maður þarf náttúrulega að brenna fyrir málefninu og þetta er náttúrulega partur af okkar sögu og mér finnst rétt að segja hana og svo er þetta pínu þráhyggja en skemmtilegt samt,” segir Gaui og bætir við.
„Þú þarft að vera hér um hálfan mánuð ef þú ætlar að sjá allt, sem er inn á safninu en þetta segir það sem þarf að segja um það sem gerðist hér. Hernám Breta, Bandaríkjamenn taka síðan við og síðan þessa skipalestir sem fóru héðan úr Hvalfirði. Hvalfjörðurinn var þunga miðja þessara atburða voru hér frá 1942 til 1945.”

Gaui segir að það hafi verið um 58 til 60 þúsund hermenn á Íslandi þegar mest var en þar af voru um 28 þúsund hermenn í skipum í Hvalfirði en þar lágu alltaf á bilinu 80 til 120 skip á hverjum tíma.
Það var alltaf töluvert talað um “ástandið” þegar hermennirnir voru á Íslandi og Gaui litli fjallar um það á setrinu sínu.
„Sumar konur tala náttúrulega um að ástandið hafi verið slæmt og sumar tala um að það hafi bara verið mjög skemmtilegt og margar skemmtilegar sögur sem þær segja mér um ástandið en svo aðrar miður skemmtilegar, það er eins og gengur og gerist,” segir Gaui.
Hernámssetrið er lokað yfir veturinn nema fyrir hópa en opið upp á gátt yfir sumarið. Gauji segir að sumarið leggist mjög vel í sig.
„Já, mjög vel, komið þið og skoðið safnið og fáið ykkur kaffi og með því og kynnið ykkur þessa skemmtilega sögu,” segir Gaui litli.
