Fjölskyldan missti heimilið sitt í Grindavík og nú er stefnan tekin austur. Jóhann bjó áður í Grindavík og starfaði þar fyrir íþróttafélagið. Það sama má segja um eiginkonu hans Petrúnellu Skúladóttur. Fjölskyldan varð að yfirgefa bæinn á sínum tíma og atvinnuöryggið farið.
Jóhann verður þjálfari Hattar við hlið Viðars Arnar Hafsteinssonar en hann tekur við starfinu af Einari Árna Jóhannssyni sem stýrði Hetti með Viðari í þrjú ár. Á síðasta tímabili komst liðið í fyrsta sinn í úrslitakeppnina þar sem það tapaði fyrir Val, 3-1.
„Við lendum náttúrulega í því að allt sé rifið upp með rótum í Grindavík, vinnur og fjölskylda og allt saman. Það var því tilvalið að prófa eitthvað alveg nýtt og fara í eitthvað ævintýri. Við fjölskyldan töluðum svolítið um það að ef ekki núna, hvenær þá?,“ segir Jóhann Árni og heldur áfram.
Eftirminnilegasta tímabilið á ferlinum
„Það er mikill uppgangur í körfunni fyrir austan og það er mjög spennandi að geta tekið þátt í þeirri uppbyggingu.“
Jóhann var aðstoðarþjálfari Grindavíkur á síðasta tímabili. Liðið komst alla leið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn þar sem það tapaði fyrir Val í oddaleik, 3-2.
„Ég held að þetta verði eftirminnilegasta tímabilið á ferlinum hjá okkur öllum sem tóku þátt í þessu. Allt sem gekk á og allt sem var ekkert tengt körfubolta. Og að reyna eitthvað að púsla körfubolta inn í þetta allt saman, það verður ótrúlega eftirminnilegt þó að við höfum ekki náð lokatakmarkinu.“
Hér að neðan má sjá viðtalið við Jóhann sem var í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.